Herforingjaráðskort
Á pappírnum er að finna aldargömul Herforingjaráðskort, landakort af Íslandi, sem eru í mælikvarðanum 1:50000 og er því lítið svæði á hverju korti. Við höfum fengið Odda til að prenta kortin fyrir okkur á gjafaarkir, 70×100 sm. Þær eru stórar og fannst okkur miklu skipta að góð gæði væru í pappírnum og gott að pakka inn í hann. Við völdum þessi kort vegna þess að litirnir og mynstrin í þeim eru svo falleg. Einnig er skemmtilegt við arkirnar að engir tveir pakkar verða eins því mynstrið er svo fjölbreytt á einni örk.
Skemmtileg saga er á bakvið kortin. Danska Herforingjaráðið lét gera þau og fóru Danir hér um á hestum og sváfu í tjöldum á milli þess sem þeir mældu landið upp og teiknuðu. Við höfum tvær gerðir af kortum í sölu núna, Norðurárdalinn frá 1913 og Heinabergsfjöll frá 1905 en ártal þeirra kemur fram á hverri örk. Landmælingar Íslands veittu góðfúslegt leyfi til að nota kortin í þessum tilgangi.
Við sjáum kortin einnig sem ákveðna innsýn í Ísland. Fólk hefur staldrað við og byrjað að skoða kortin og reynt að átta sig á því hvar á landinu það er statt. Það er mjög skemmtilegt og gefur pappírnum meira vægi. Einnig til þess að vekja athygli á því að á Íslandi er alls staðar fallegt, eina sem maður þarf að gera er að anda að sér ferska loftinu, horfa í kringum sig og njóta!