Hús Handanna á Egilsstöðum í samvinnu við Þorpið og austfirska listhandverksmenn standa nú að sýningu þar sem fimm endurgerðir af nytjahlutum sem tengjast Austurlandi eru sýndir í Á Skörinni, Austurstræti 10, Reykjavík. Um er að ræða tvo kunnuglega trékolla sem voru algeng eign á síðustu öld víða um land en í mismunandi formi og efni. Austfirsku kollarnir sem nú hafa verið endurgerðir hafa fengið nafnið Ömmukollur og Egilsstaðakollur. Það er Sigurður Ólafsson á Aðalbóli í Hrafnkelsdal sem framleiðir kollana í samvinnu við Epal.

Ömmukollurinn er smíðaður eftir fyrirmynd í eigu Sveinbjargar Hrólfsdóttur frá Reynihaga í Skriðdal og er þessi útgáfa sá kollur sem verður framleiddur og markaðssettur til að skapa nýjar minningar hjá ömmum nútímans.

Egilsstaðakollurinn var framleiddur frá 1954 á trésmíðaverkstæði Kaupfélags Héraðsbúa en var einnig árum saman skyldustykki í trésmíðum í Alþýðuskólanum á Eiðum. Egilsstaðakollurinn hefur nú verið endurgerður úr Hallormsstaðalerki.

Eik á Miðhúsum hefur síðstliðin ár framleitt endurgerð af gamla góða spítujólatrénu og einnig endurgerð af silfurhring frá víkingaöld sem fannst við Þórarinsstaði við Seyðsisfjörð árið 1999.
Möðrudalssnaginn er einnig með í för til höfuðborgarinnar en snaginn er endurgerð eftir snögum sem Jón Stefánsson frá Möðrudal smíðaði gjarnan úr þeim efnivið sem var aðgengilegur á Fjöllum. Afkomandi hans Hulda Eðvaldsdóttir nýtti sér sköpunargleði langafa síns og notaði snagann sem innblástur í hönnun á Gibba gibb snögum sínum. Í kjölfar sýningarinnar verður vefverslun Húss Handanna opnuð um 20 nóvember n.k. www.hushandanna.is
Sýningin mun standa til og með 20.nóvember.
Á Skörinni, Aðalstræti 10, 101 Reykjavík.