Á HönnunarMars í Epal verður til sýnis úrval af áhugaverðri hönnun eftir fjölbreyttan hóp íslenskra hönnuða sem hafa náð góðum árangri á sínu sviði bæði hérlendis og erlendis.
„Við höfum alla tíð stutt íslenska hönnuði og lagt okkur fram um að hjálpa þeim við að koma verkum sínum á framfæri og í framleiðslu. Hluti af því er þátttaka í HönnunarMars og í ár viljum við vekja athygli á alþjóðlega viðurkenndri íslenskri hönnun, því oft gerum við okkur ekki grein fyrir því hversu víða íslensk hönnun berst,“ segir Eyjólfur Pálsson, stofnandi og eigandi Epal. Sýningin í Epal opnar miðvikudaginn 27. mars kl. 17:00.
Heimsfrumsýning á nýjum lunda
Á sýningunni verða vel á annan tug hönnuða en þar verður jafnframt heimsfrumsýning á nýjum fugli eftir Sigurjón Pálsson, lunda sem framleiddur er af Normann Copenhagen.
„Það er mikill heiður að fá að frumsýna lundan, sem margir hafa beðið lengi eftir,“ segir Eyjólfur og bendir á að það sé í raun merkilegt hversu margir íslenskir hönnuðir hafa starfað og starfi hjá þekktustu og virtustu hönnunarfyrirtækjum heims: „Ég get nefnt sem dæmi að Hlynur V. Atlason, sem starfar í New York, hannaði nýverið glæsilega vörulínu fyrir ercol og feðginin Kolbrún Leósdóttir og Leó Jóhannsson, sem búa í Stokkhólmi, hanna fyrir Skipper Furniture í Danmörku og Guðmundur Lúðvík hannar fyrir Fredericia Furniture í Kaupmannahöfn. Það er nær óþarfi að kynna Siggu Heimis en hún er nú að hanna fallega hjartaspegla og fer allur ágóði af sölu þeirra til Sjónarhóls.“
„Íklædd arkitektúr“
Í Epal verður einnig til sýnis nemendasýning 3. árs fatahönnunarnema Listaháskóla Íslands „Íklædd arkitektúr“ undir stjórn Katrínar Káradóttir og Dainius Bendikas.
Innsetningin Íklædd arkitektúr er samstarfsverkefni 3. árs nema í fatahönnun og 1. árs nema á alþjóðlegri samtímadansbraut.
Í verkefninu Íklædd arkitektúr var lögð áhersla á að dýpka skilning og þekkingu fatahönnunarnema á faginu. Innblásturs var leitað frá hinu virta fyrirtæki Kvadrat sem framleiðir fyrst og fremst textíl til innanhúsnotkunar. Unnið var í samstarfi við Epal og gaf fyrirtækið nemendum 100 m af efnum af eldri lager gardínuefna danska textílframleiðandans sem þekktur er um allan heim fyrir framúrskarandi hönnun og gæði í framleiðslu.
Fatahönnunarnemar kynntu afrakstur námskeiðsins fyrir dansnemum, sýndu hönnunarverk og gáfu þeim innsýn inn í rannsóknarvinnu sína. Dansnemarnir unnu svo nokkra ördansa út frá þremur verkum, með tilliti til forms, efnis og hreyfieiginleika hvers þeirra.
Afrakstur verkefnisins verður sýndur í heild sinni á opnun sýningar Epal á HönnunarMars. Gjörningurinn stendur í um 30 mínútur og verður sýndur tvisvar meðan á opnuninni stendur.
Nemendur í fatahönnun: Sigmundur Páll Freysteinsson, Kristín Áskelsdóttir, Steinunn Stefánsdóttir,Ingerð Tórmóðsdóttir Jönsson, Julie Mölgard Jensen, Sigríður Ágústa Finnbogadóttir, Þ. Sunneva Elfarsdóttir
Nemendur í samtímadansi undir leiðsögn Ásgeirs Helga Magnússonar: Bjartey Elín Hauksdóttir, Mathilde Mensink, Mira Jochimsen
Hönnunarmars í Epal stendur yfir dagana 28. – 31. mars 2019.
Opnunarhóf miðvikudaginn 27. mars kl. 17–19. Allir velkomnir.