Epal tekur þátt í HönnunarMars ellefta árið í röð með vandaðri sýningu á íslenskri hönnun. Að þessu sinni er athyglinni beint að fjölbreyttum hóp íslenskra hönnuða sem hafa náð góðum árangri á sínu sviði bæði hérlendis og erlendis, enda hefur verslunin haft það að leiðarljósi frá stofnun að auka skilning og virðingu fyrir hönnun á Íslandi.
Pastelpaper er á meðal sýnenda í Epal á HönnunarMars.
Linda Jóhannsdóttir er lærður hönnuður frá Listaháskóla Íslands. Linda hefur komið víða við sem blaðamaður og stílisti en síðustu ár hefur hugur hennar og hjarta legið í eigin rekstri. Árið 2014 stofnaði hún merkið Pastelpaper og hannar undir því nafni dásamlegar illustration línur sem prýða myndir og póstkort. Þrívídd messing verk og vatnslitaverk eftir Lindu hafa vakið mikla athygli, en þess má geta að eitt af verkum hennar skreytti nýverið kerti sem selt var til styrktar góðgerðarstarfseminni „Göngum saman“. Pastelpaper er þó þekktast fyrir fallegar fuglamyndir sem fást víða í verslunum. Verk Lindu einkennast af leik af formum og litum ásamt hágæða framleiðslu – en öll framleiðsla fyrir Pastelpaper er íslensk.
B38 er fyrsta húsgagnið sem Linda hannar og er hluti af fyrirhugaðri húsgagna- og heimilislínu. Húsgögn hafa lengi verið á teikniborðinu hjá Lindu og hér heldur hún áfram að vinna með form. Skemmtilegt form borðsins gefur rými þess aukið aðdráttarafl enda rík áhersla lögð á efnisval, einfaldleika og gæði. Hér heldur Linda áfram að senda frá sér íslenska framleiðslu.
Hönnunarmars í Epal stendur yfir dagana 28. – 31. mars