Mæðrablómið er falleg lyklakippa sem Tulipop sá um að hanna og framleiða til styrktar Menntunarsjóði Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur.
Á mæðradaginn, ár hvert, hefur ,,Mæðrablómið” verið selt sem fjáröflunarleið fyrir Menntunarsjóðinn, en sjóðurinn hefur frá stofnun árið 2012 styrkt um 52 efnalitlar konur til náms. Konurnar hafa verið styrktar til margs konar náms, s.s. við framhaldsskóla, Tækniskólann, háskóla og til að fara á ýmiss hagnýt námskeið. Sumar hafa þegar lokið háskólaprófi eða fagmenntun á ákveðnu sviði, sumar eru í miðjum klíðum og enn aðrar eru að ljúka námi á þessu ári eða í vor. Flestar eða allar þessara kvenna hefðu ekki átt þess kost að fara í nám hefðu þær ekki hlotið styrk úr Menntunarsjóðnum.
Sala á Mæðrablómslyklakippunni hefst nú á laugardag þar sem mæðradagurinn er á sunnudag, 10. maí, og mun halda áfram á meðan birgðir endast enda varan falleg gjöf sem hentar við margvísleg tækifæri.
Sala á Mæðrablóminu hefst laugardaginn 9.maí og mun það kosta 2.500 kr.