Nicholai Wiig Hansen hannaði Nic Nac skipulagsboxin fyrir Normann Copenhagen sem við vorum að fá. Boxin er hægt að nota á ótalmarga vegu og koma í sjö fallegum litum og fimm ólíkum stærðum sem passa hver inn í aðra. Notaðu Nic Nac undir lyklana, á skrifborðið, undir snyrtivörur, til að bera fram veitingar, undir ávexti eða sem bakka undir olíur í eldhúsið, þitt er valið.
Með þátttöku EPAL í HönnunarMars hefur opnast nýr gluggi að góðri hönnun.
Epal kynnti á HönnunarMars 2016 nýjar vörur sem var afrakstur samvinnu íslenskra og danskra hönnuða sem öll eiga það sameiginlegt að hafa náð langt í sínu fagi – þessi samvinna fékk nafnið BYLGJUR: undir íslenskum áhrifum.
“Sex framsæknir hönnuðir voru fengnir í tilefni 40 ára afmæli Epal til að hanna nýjar vörur úr íslensku hráefni og útfrá íslenskum innblæstri sem höfðar til alþjóðamarkaðar. Útkoman var fjölbreytt en þar má nefna gólfmottu, húsgögn, værðarvoð, trefla ásamt fleiru. Hönnuðir verkefnisins voru þau Ingibjörg Hanna Bjarnadóttir, Ragnheiður Ösp Sigurðardóttir, Margrethe Odgaard, Christina L. Halstrøm, Ulrik Nordentoft og Sebastian Holmbäck.”
Við sýndum einnig áhugaverða hönnun eftir fjölbreyttan hóp hönnuða, þekktra jafnt sem nýrra. Þar má nefna Sigurjón Pálsson, Scintilla, Önnu Þórunni, Ragnheiði Ösp, Guðmund Lúðvík, Elsu Nielsen, Ingibjörgu Hönnu, Sverrir Þór Viðarsson ásamt fleirum. Á Epal blogginu má sjá úttekt um verk hvers og eins hönnuðar sem við mælum svo sannarlega með að skoða, sjá hér.
Ljósmyndarinn Gunnar Sverrisson tók myndirnar hér að neðan af sýningunni okkar í ár.
Á HönnunarMars í Epal sýndi Guðný Hafsteinsdóttir línuna Baugar.
„Handgerðir hlutir segja sögu sína í hljóði og tjá vinnuna sem er að baki hlutarins. Baugar er í senn skúlptúr, lágmynd á vegg og kertastjaki. Verkið samanstendur af þremur misstórum hringjum sem unnir eru úr svörtum leir og vikri sem gefa því hrátt yfirbragð og hraunáferð. Hringirnir eru með innfelda rauf og er því hægt að raða kertum í þá eins hverjum þykir fara best.”
Guðný Hafsteinsdóttir er keramiker og hönnuður. Hún er fædd í Vestmannaeyjum og ólst upp í návígi við hafið, höfnina, björgin og dýralífið sem einkennir eyjarnar og má glöggt nema áhrif þaðan í verkum hennar. Guðný nam við Myndlista-og handíðaskóla Íslands og var auk þess við nám í Finnlandi, Danmörku og í Ungverjalandi. Hún er félagi í Leirlistarfélagi Íslands og sat í stjórn Hönnunarmiðstöðvar frá 2011-2015 fyrir hönd félagsins. Hún hefur haldið einkasýningar, tekið þátt í fjölda samsýninga og hlotið viðurkenningar fyrir verk sín. Guðný hefur tekið þátt í rekstri nokkurra gallería og hefur rekið eigið verkstæði frá 1995.
Á HönnunarMars í Epal sýndi Inga Elín fallega matardiska og vasa. “Það er endalaus leit að skapa tímalausa hönnun, blanda saman góðu formi og skreytingu. Matardiskur er einn af þeim hlutum sem við notum oftast í okkar daglega lífi. Sambland af notagildi og skúlptúr, skreyting, tímalaust, fallegt, óvenjulegt. Hver er galdurinn við þetta allt saman? Leika sér að formum og litum. Vasi þarf að hugsa vel um blómin, umvefja þau. Vasi þarf líka að geta staðið án blóma og glatt umhverfið.”
Inga Elín hefur starfað við myndlist í hart nær þrjá áratugi og haldið fjölmargar sýningar hérna heima og erlendis. Upplýsinga um hana eru á www.ingaelin.com
Á HönnunarMars í Epal sýndi Ingibjörg Ósk Þorvaldsdóttir viðbót við vörulínuna „Uppáklædd“.
“Það var tekanna sem kynnt var á HönnunarMars 2016. Í fyrra var kaffikannan „Uppáklædd“ kynnt og var grunnhugmynd hennar snúningur af öllu tagi, snúningur tvinnakeflis, leirrennibekks eða hringsnúningur vatnsbununnar þegar hellt er upp á kaffið. Tekannan er unnin út frá sömu grunnhugmynd. Hún er einnig úr postulíni og hefur svipað grip og kaffikannan. Hún tekur rúma 800 ml af löguðu tei og sómir sér vel við hlið kaffikönnunnar.
„Uppáhald“ er borðflaska fyrir vatn eða vín gerð úr postulíni. Hún tekur um 500 ml af vökva og er með kúlulaga tappa. Nafn borðflöskunnar vísar bæði til forms flöskuhálsins sem haldið er um þegar hellt er úr henni og þess að útlit hennar er í uppáhaldi hjá mörgum.
Vínglös úr postulíni eru í tveimur stærðum og nokkrum litum. Form þeirra er einfalt og látlaust. Þau henta vel til þess að bera fram líkjör eða sherry.
Á nýliðnum HönnunarMars í Epal sýndi hönnuðurinn Sigurjón Pálsson nokkur ný verk.
Sigurjón Pálsson er menntaður húsgagnaarkitekt frá Danmarks Designskole– en uppá síðkastið hefur hann mest verið þekktur fyrir fuglinn „Shorebird“ sem er framleiddur af hinu þekkta danska fyrirtæki Normann Copenhagen. Einnig er Sigurjón rithöfundur og hefur gefið út tvær sakamálasögur og þess má nefna að hann vann hin virtu verðlaun blóðdropan fyrir bestu sakamálasöguna 2012.
Í hönnun sinni leitast Sigurjón við að sameina efni, form og notagildi þannig að úr verði einföld og samhæfð heild þessarar þrenningar
Á HönnunarMars í Epal kynnti Sigurjón til sögunnar nýja útgáfu af Vaðfuglum í svörtu og hvítu sem framleiddir eru af Normann Copenhagen og eru þegar komnir í sölu, ásamt þeim voru hvalur sem verður framleiddur í samstarfi við Epal ásamt hænu og kertastjökum.
Sverrir Þór Viðarsson kynnti á HönnunarMars í Epal fallega handsmíðaða vöggu. Sverir Þór er innanhússarkitek, útskrifaður frá ISAD í Mílanó, árið 2008 og hefur unnið hin ýmsu verkefni á sviði arkitektúrs og hönnunar gegnum árin. Bæði stór sem smá verkefni í samstarfi við aðra á arkitektastofu sem og prívat verkefni.
“Vaggan var upphaflega hönnuð fyrir son minn og til að þjóna okkar þörfum. Sá ég fyrir mér að hún gæti verið í notkun innan fjölskyldunnar fyrir komandi kynslóðir. Markmiðið var að hanna klassískan hlut sem hægt væri að hafa á hjólum og væri einfalt að setja saman, sem og taka í sundur og koma fyrir í geymslu.”
Sunbird kynnir frumgerð að vöggu úr birkikrossviði og beyki. Vaggan kemur í flatpakka og því er auðvelt að geyma hana og láta ganga á milli kynslóða. Rimlum var sleppt til að freista ekki eldri barna á heimilinu eða þeirra sem koma í heimsókn. Þegar börn sjá ekki ofan í vögguna þá láta þau ungabarnið og vögguna óáreitt. Sunbird kynnti einnig sængurföt og stoðkant fyrir ungabörn. Stoðkantinn má einnig nota sem bók. Myndefnið er sótt í íslenskt sveitalíf, fjöll, fossa og dýr. Efnið í sængurfötum og stoðkanti er lífrænt og slitsterkt bambussilki.
Á nýliðnum HönnunarMars í Epal kynnti vöruhönnuðurinn Ragnheiður Ösp Sigurðardóttir línu af teljósastjökum handunnum úr möttu postulíni. Hearth er lína af teljósastjökum sem bjóða uppá leik með form og liti, hver stjaki samanstendur af þremur bitum sem hægt er að raða saman og víxla að vild og skapa þannig margar mismunandi útkomur.