Flest okkar þekkjum Krumma Ingibjargar Hönnu sem kom á markað árið 2007. Hann hefur slegið svo rækilega í gegn að það þarf einungis að taka stuttan bíltúr til að sjá Krummann njóta sín hangandi í fjölmörgum gluggum. Núna er hægt að næla sér í Krummann í hátíðarbúning, en hann var nýlega settur í framleiðslu í fallegum koparlit. Glæsilegur Krummi fyrir hönnunarunnendur sem fæst að sjálfsögðu hjá okkur í Epal.
Við vorum að fá þennan fallega Íslandsbakka, sem er tilvalinn í jólapakkann fyrir þann sem kann vel að meta íslenska hönnun.
Listaverk eftir Unni Ýrr Helgadóttur prýðir Íslandsbakka Nr.1 sem ber heitið “Sveitin mín”. Innblástur verksins er ljóðið “Sveitin mín” eftir Sigurð Jónsson sem finna má á bakhlið bakkans.
Ísland hefur sterk áhrif á listamanninn, en Unnur leggur áherslu á samspil og flæði lita. Margbreytileg náttúrusýn með víðfeðmri flóru lita og sterk sýn með þjóðlegum minnum og fólki en nánast annars- heimslegri litadýrð/myndefni eru einkenni Unnar sem listamanns.
Unnur starfar sem grafískur hönnuður og listmálari hér á landi og í Svíþjóð. Meira má finna um hana á www.unnurart.com.
Nappula kertastjakarnir voru hannaðir árið 2012 af Matti Klenell. Innblástur kertastjakanna fékk hann í ferð sinni í Nuutajärvi glersafnið í Finnlandi og varð hann yfir sig hrifinn af borði sem hann sá þar, en það var einstakt fyrir óvenjulega lögun sína. Innblásinn af formi borðsins teiknaði hann Nappula kertastjakana sem samtvinna ást hans á nútímalegri og vintage hönnun. Nappula kertastjakarnir eru framleiddir úr brass og stáli sem er púðurhúðað í svörtum, hvítum, grænum og blágrænum lit.
Smart blanda af Iittala Nappula og Iittala Festivo saman á borði frá HAY.
Matti Klenell er sænskur hönnuður sem hefur sérhæft sig í hönnun á glervörum og eru þekktustu vörurnar sem hann hefur hannað fyrir Iittala staflanlegu Lempi glösin og sería af glerfuglum sem bera einfalda nafnið Birds. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann þegar skapað sér stórt nafn í hönnunarheiminum.
Smelltu “like” við facebook síðu Epal og skildu eftir skemmtilegt komment við myndina af Nappula kertastjökunum. Heppnin gæti verið með þér!
Eftir helgi drögum við út einn heppinn lesanda sem hlýtur tvo fallega gyllta Nappula kertastjaka.
Árið 1953 hannaði Christian Flensted sinn fyrsta óróa og þá í tilefni skírnar dóttur sinnar. Hann skar þá út þrjá storka og útkoman var Storka-óróinn sem var upphafið af ánægjulegu ævintýri hans. Árið 1954 stofnaði hann fyrirtæki sitt Flensted Mobile og hannaði ótal marga óróa í viðbót sem margir hverjir hafa notið gífulegra vinsælda í gegnum árin.
Einstaklega fallegir óróar sem gerðir eru úr miklum gæðum. Flensted óróar fást núna hjá okkur í Epal.
Stuðlar eru nýir kertastjakar frá íslenska hönnunarfyrirtækinu Inspira sem hannaði þá útfrá íslenskri náttúru.
“Stuðlaberg er eitt fegursta fyrirbæri sem sést á eldfjallasvæðum og á Íslandi eigum við mörg dæmi um fallegt stuðlaberg. Stuðla stjakarnir frá Inspira sækja innblástur sinn beint í þessa stórfenglegu steinamyndun og koma í þremur hæðum og gerir hönnunin ráð fyrir bæði sprittkertum og háum kertum.
Stuðlarnir eru framleiddir á Íslandi úr gegnheilli steypu og hægt er að fá þá staka eða í settum af þremur eða sex stjökum með eikarplöttum. Býður hönnunin upp á ýmsar útfærslur og uppraðanir og er því gaman að geta safnað þeim saman og átt kost á að skapa sér sína eigin persónulegu útgáfu af þessum glæsilegu stjökum.”
“Köld grá steypan minnir óneitanlega á kalt bergið sem mýkist og lifnar við með hlýrri birtu kertaljósa. Þegar hlý eikin veitir kaldri steypunni undirstöðu undirstrikast enn frekar þessi áhugaverða blanda af köldum og hlýjum efnivið. Náttúrulegur efniviðurinn gerir það að verkum að enginn stjaki né platti er með öllu eins heldur fá náttúrulegir eiginleikar steypunnar og eikarinnar að skína í gegn í öllum sínum fullkomna ófullkomleika.”
Stuðlar fást í Epal.
Við höfum hafið sölu á þrívíddarplakötum og fást þau í Epal Hörpu.
Ingvar Björn Þorsteinsson er listamaðurinn á bak við verkin og eru þau samofin listviðburðinum Largest Artwork sem stóð yfir fyrr á þessu ári. Ingvari er hugleikið að sameina krafta samfélagsins og vekja vitund okkar til stuðnings þeim sem minna mega sín, líkt og þegar hann vann listaverk til styrktar UNICEF.
Á morgun, laugardag, verður Ingvar Björn staddur í Epal Hörpu og áritar verkin á milli kl.13-15.
Á sama tíma er einnig Jólamarkaður PopUp verzlunar sem stendur frá kl.12-18 og hvetjum við sem flesta til að kíkja við í Hörpu.
Listasafn Reykjavíkur tók í gær við veglegri gjöf frá Epal en um er að ræða 25 stóla eftir danska hönnuðinn Arne Jacobsen, Sjöuna sem fyrst kom á markað árið 1955. Stólarnir eru viðbót við 80 stóla sömu gerðar sem er að finna í safninu.
Stólarnir eru kærkomin viðbót fyrir Listasafn Reykjavíkur sem heldur reglulega stóra viðburði á sínum vegum. Nú hafa fleiri gestir safnsins tækifæri til að njóta Sjöunnar eftir Arne Jacobsen.
„Reykjavíkurborg þakkar fyrir þessa höfðinglegu gjöf en hún sýnir þann góða hug sem Epal ber til safnsins. Eyjólfur Pálsson hefur allt frá upphafi lagt sig fram um að auka skilning og virðingu Íslendinga fyrir góðri hönnun. Þessir stólar, sem við tökum nú við, sóma sér afar vel innan um önnur verðmæti sem safnið geymir,“ segir Jón Gnarr borgarstjóri sem tók við gjöfinni fyrir hönd safnsins.
„Listasafn Reykjavíkur er með í sölum sínum fjölda gæðastóla eftir Arne Jacobsen sem keyptir voru til safnsins á sínum tíma en þörf hefur verið fyrir fleiri stóla. Með þessari gjöf vil ég gera safninu mögulegt að bæta við stólum sömu gerðar og uppfylla ströngustu skilyrði um góða hönnun, sem safnið væri annars ekki í stöðu til að gera,“ segir Eyjólfur Pálsson stofnandi Epal.