INSPIRA : ÍSLENSK HÖNNUN

Stuðlar eru nýir kertastjakar frá íslenska hönnunarfyrirtækinu Inspira sem hannaði þá útfrá íslenskri náttúru.

“Stuðlaberg er eitt fegursta fyrirbæri sem sést á eldfjallasvæðum og á Íslandi eigum við mörg dæmi um fallegt stuðlaberg. Stuðla stjakarnir frá Inspira sækja innblástur sinn beint í þessa stórfenglegu steinamyndun og koma í þremur hæðum og gerir hönnunin ráð fyrir bæði sprittkertum og háum kertum.

Stuðlarnir eru framleiddir á Íslandi úr gegnheilli steypu og hægt er að fá þá staka eða í settum af þremur eða sex stjökum með eikarplöttum. Býður hönnunin upp á ýmsar útfærslur og uppraðanir og er því gaman að geta safnað þeim saman og átt kost á að skapa sér sína eigin persónulegu útgáfu af þessum glæsilegu stjökum.”

“Köld grá steypan minnir óneitanlega á kalt bergið sem mýkist og lifnar við með hlýrri birtu kertaljósa.  Þegar hlý eikin veitir kaldri steypunni undirstöðu undirstrikast enn frekar þessi áhugaverða blanda af köldum og hlýjum efnivið. Náttúrulegur efniviðurinn gerir það að verkum að enginn stjaki né platti er með öllu eins heldur fá náttúrulegir eiginleikar steypunnar og eikarinnar að skína í gegn í öllum sínum fullkomna ófullkomleika.”

Stuðlar fást í Epal.

ÍSLENSK ÞRÍVÍDDARVERK

Við höfum hafið sölu á þrívíddarplakötum og fást þau í Epal Hörpu.

  Ingvar Björn Þorsteinsson er listamaðurinn á bak við verkin og eru þau samofin listviðburðinum Largest Artwork sem stóð yfir fyrr á þessu ári. Ingvari er hugleikið að sameina krafta samfélagsins og vekja vitund okkar til stuðnings þeim sem minna mega sín, líkt og þegar hann vann listaverk til styrktar UNICEF.

Þetta hófst allt þegar að þúsundir manna frá öllum heimsins hornum tóku þátt í gegnum Facebook að skapa stærsta listaverk í heimi úr litlum táknum -Largest Artwork in the World sem var til styrktar UNICEF. Núna hafa þessi litlu tákn fengið nýtt hlutverk og eru partur af seríu af þrívíddarplakötum í Pop Art stíl.


Á morgun, laugardag, verður Ingvar Björn staddur í Epal Hörpu og áritar verkin á milli kl.13-15.

Á sama tíma er einnig Jólamarkaður PopUp verzlunar sem stendur frá kl.12-18 og hvetjum við sem flesta til að kíkja við í Hörpu.

Epal færir Listasafni Reykjavíkur gjöf

Listasafn Reykjavíkur tók í gær við veglegri gjöf frá Epal en um er að ræða 25 stóla eftir danska hönnuðinn Arne Jacobsen, Sjöuna sem fyrst kom á markað árið 1955. Stólarnir eru viðbót við 80 stóla sömu gerðar sem er að finna í safninu.

Stólarnir eru kærkomin viðbót fyrir Listasafn Reykjavíkur sem heldur reglulega stóra viðburði á sínum vegum. Nú hafa fleiri gestir safnsins tækifæri til að njóta Sjöunnar eftir Arne Jacobsen.

„Reykjavíkurborg þakkar fyrir þessa höfðinglegu gjöf en hún sýnir þann góða hug sem Epal ber til safnsins. Eyjólfur Pálsson hefur allt frá upphafi lagt sig fram um að auka skilning og virðingu Íslendinga fyrir góðri hönnun. Þessir stólar, sem við tökum nú við, sóma sér afar vel innan um önnur verðmæti sem safnið geymir,“ segir Jón Gnarr borgarstjóri sem tók við gjöfinni fyrir hönd safnsins.

„Listasafn Reykjavíkur er með í sölum sínum fjölda gæðastóla eftir Arne Jacobsen sem keyptir voru til safnsins á sínum tíma en þörf hefur verið fyrir fleiri stóla.  Með þessari gjöf vil ég gera safninu mögulegt að bæta við stólum sömu gerðar og uppfylla ströngustu skilyrði um góða hönnun, sem safnið væri annars ekki í stöðu til að gera,“ segir Eyjólfur Pálsson stofnandi Epal.

 

JÓLASERVÍETTUHRINGURINN 2013

Fyrir jólin undanfarin ár hefur Erling Jóhannesson gullsmiður, hannað og framleitt jólaservíettuhringa. Hringarnir eru smíðaðir úr stáli einfaldir í formi en engu að síður ákaflega jólalegir. Hugmyndin er að samhliða servéttuhringunum komi fleiri vandaðar hönnunar vörur sem tengjast jólum.

Erling Jóhannesson er menntaður gullsmiður frá Iðnskólanum í Reykjavík og stundaði framhaldsnám á Ítalíu, Hann útskrifaðist sem leikari frá Leiklistarskóla Íslands 1990 og hefur starfað jöfnum höndum sem gullsmiður, leikari og leikstjóri frá þeim tíma.

Tvær jólabjöllur prýða hringinn, fjórða árið sem hann kemur út. Hringurinn er stílhreinn í formi og áferð sem kallar á einfalt mynstur, sem þó ber með sér anda jólanna.

JÓLADAGATAL EPAL

6 innanhússarkitektar verða hjá okkur í Skeifunni 6, laugardaginn 23. nóvember á milli 12-16 og veita þau faglega ráðgjöf um litaval ofl. Það verða þau Berglind Berndsen, Dóra Hansen, Helga Sigurbjarnadóttir, Andrés James Andrésson, Sverrir Þór Viðarsson og Gerður Guðmundsdóttir.

Við hvetjum ykkur til að nýta ykkur þjónustu þessara flottu innanhússarkitekta endurgjaldslaust þennan eina dag. 

EILERSEN SÓFAR

Það er 25% afsláttur af sófum frá Eilersen til 23.nóvember.

Danski húsgagnaframleiðandinn Eilersen á sögu sína að rekja allt aftur til ársins 1895 þegar hinn ungi Niel Eilersen starfaði sem hestakerrusmiður. Hann var sá fyrsti í Danmörku til að nota gufu til að beygja við, en þá aðferð notaði hann til að smíða kerruhjólin. Þegar sá tími kom að bílar tóku við af hestukerrum hóf Eilersen verksmiðjan að smíða sæti í bíla og rútur. En þegar að verksmiðjan brann til kaldra kola árið 1934 breyttust áherslur Eilersen algjörlega sem hóf þá að framleiða hágæða bólstruð húsgögn. Í dag rekur fjórða kynslóð Eilersen fjölskyldunnar verksmiðjuna sem einbeitir sér að hönnun og smíði á gæðasófum sem njóta mikilla vinsælda í dag um heim allann.

 

Kíktu við í Epal Skeifunni og skoðaðu úrvalið.

NÝTT: KERTI FRÁ SKANDINAVISK

Við vorum að bæta við vöruúrval okkar dásamlegum gæðakertum frá danska merkinu Skandinavisk. Það eru þrjár týpur af ilmkertum, Skov, Hygge og Hav ásamt ilmlausum kertum sem brenna mjög hægt.