Stúfur er sjöundi óróinn í Jólasveinaseríu Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Þau Bragi Valdimar Skúlason og Þórunn Árnadóttir leggja félaginu lið í ár og sameina hér krafta sína í túlkun á Stúfi. Þórunn orti í stálið og Bragi kvæði. Í fréttatilkynningu frá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra segir að markmiðið með gerð og sölu Stúfs sé að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna. Allur ágóði rennur til æfingastöðvar styrktarfélagsins en þar fer fram umfangsmesta sjúkra- og iðjuþjálfun barna á landinu.
Jólaóróinn var gerður í takmörkuðu upplagi og er seldur dagana 5.-19. desember.
Þórunn Árnadóttir.
Þórunn Árnadóttir er fædd í Reykjavík árið 1982. Hún lauk BA-prófi í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2007 og MA-prófi frá Royal College of Art árið 2011. Hún býr nú og starfar í London. Verk Þórunnar spanna ýmsa miðla og tækni og eru gjarnan byggð á tilraunum og ítarlegum rannsóknum á ýmsum menningarfyrirbærum og mannlegum samskiptum. Þórunn hefur bæði starfað sjálfstætt og í samstarfi við aðra. Meðal þekktari viðskiptavina hennar eru Swarovski, Camron PR og V&A lista- og hönnunarsafnið í London. Hún hefur auk þess unnið náið með hönnunarfyrirtækinu Destes að framleiðslu á eigin hönnun.
Þórunn hefur tekið þátt í fjölmörgum hönnunarsýningum hérlendis og erlendis. Verk eftir hana hafa verið sýnd á söfnum víða um heim og hlotið verðskuldaða athygli og viðurkenningar. Meðal verðlauna sem Þórunn hefur hlotið eru Best Product á NY International Gift Fair, fyrir klukkuna Sasa árið 2010.
Bragi Valdimar Skúlason.
Bragi Valdimar Skúlason er fæddur árið 1976. Hann ólst upp í Hnífsdal fram á unglingsár, þegar hann fluttist til Reykjavíkur. Bragi, sem er menntaður í íslensku frá Háskóla Íslands, hefur getið sér gott orð fyrir vinnu sína að tónlist m.a. með Baggalúti og Memfismafíunni og nú síðast í Hljómskálanum á RÚV, sem hlaut tvenn Edduverðlaun árið 2012. Þá hefur hann samið þó nokkuð af tónlist fyrir börn, m.a. á hljómskífunum Gilligill og Diskóeyjunni – og fyrir leikritið Ballið á Bessastöðum.
Bragi er ekki síst þekktur fyrir textagerð sína, en textar hans hafa notið mikilla vinsælda. Hann hefur unnið efni fyrir útvarp, gert lög fyrir kvikmyndirnar Okkar eigin Osló og Þór: Hetjur Valhallar ásamt því að ritstýra Vísdómsritaröð Baggalúts. Bragi hefur margoft verið tilnefndur til íslensku tónlistarverðlaunanna – og hlotið þau nokkur. Jafnframt hefur hann, ásamt félögum sínum í Baggalúti, hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar, m.a. Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar.