Þau Katrín Ólína Pétursdóttir og Hallgrímur Helgason leggja Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra lið í ár við hönnun Jólaóróans – Grýlu. Katrín Ólína fæst við stálið en Hallgrímur við orðin. Grýla er ein þekktasta þjóðsagnapersóna okkar Íslendinga. Hún er móðir jólasveinanna og sinnir því vandasama hlutverki að ala þá ólátabelgina upp. Grýla á sinn stað í hugum okkar flestra, en gráglettnar frásagnirnar vekja gjarnan minningar úr barnæsku. Markmið með gerð og sölu Grýlu er að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna. Allur ágóði rennur til Æfingastöðvar Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra.