Epal tekur þátt í HönnunarMars tólfta árið í röð með vandaðri sýningu á íslenskri hönnun. Ólöf Erla er á meðal sýnenda í Epal á HönnunarMars.
Ólöf Erla er keramiker og rekur eigið verkstæði að Hamraborg 1 í Kópavogi. Hún hefur starfað á flestum sviðum fagsins bæði við handunnar vörur og hönnun, ein og í samstarfi við aðra.
Á Hönnunarmars í Epal kynnir Ólöf Erla hengipotta fyrir blóm.
“Rauðleir hefur verðir notaður sem efni í blómapotta um áraraðir og hentar gróðri vel þar sem hann loftar vel, gefur frá sér umfram raka og skapar þannig lífvænlegt umhverfi fyrir plönturnar. Pottarnir sem hér eru sýndir eru samt vatnsheldir og hugsaðir sem pottahlífar. Þeir eru frumgerðir að nýrri renndri línu í tveimur stærðum. Pottarnir eru hringlaga en form botnsins er lífrænt og vísar í jarðveginn og leirinn sjálfan. Grófar náttúrlegar fellingar þrýstast niður úr beinu leirveggjunum og mynda kúptan botn sem nýtur sín vel hangandi. Pottarnir fljóta fallega í rými og minna á upprunann, jarðveginn og leirinn sem umlykur plönturnar. Þrjú sterk hringlaga göt fyrir kaðla og snæri undirstrika funkskjón pottanna og gefa þeim ákveðið yfirbragð.
Pottarnir eru frumgerðir á nýrri handgerðri línu hangandi blómapotta í þremur stærðum. Þeir eru úr rauðleir, sem er algengasta efnið í blómapottum og það efni sem flestir tengja við slík ílát. Þeir eru vatnsheldir. Hangandi blómapottar, svífandi ílát er spennandi viðfangsefni sem hentar vel þar sem pottablóm eru mjög vinsæl í híbýlum í dag. Þar sem þeir eru hangandi, stækka þeir rýmið í íbúðinni sem hægt er að nota fyrir blóm og eru þess vegna spennandi viðfangsefni. Þar sem þeir svífa í lausu lofti finnst mér líka áhugavert að leggja áherslu á útlit botnanna þar sem þeir sjást svo vel.”