Keramikhönnuðurinn Sigríður Hjaltdal Pálsdóttir eða Bíbí frumsýnir diskinn Stefni í Epal á Hönnunarmars dagana 12. til15. mars, 2015. Stefnir er ný hönnun frá bybibi sem tengir vangaveltur Bíbíar um það hvernig við umgöngumst og nálgumst mat við form, efni og áferð hlutanna. Varan er hönnuð til að ýta undir meðvitund okkar um næringu, augnablikið og hvernig við getum staldrað við og notið matarins og líðandi stundar.
Stefnir býður upp á leik með framreiðslu. Hægt er að raða diskunum saman og mynda þannig stærri fimmhyrndan disk. Nafnið er rammíslenskt og vísar bæði í form disksins og nýja stefnu í nálgun við matarlist. Hægt verður að fá Stefni í mismunandi útfærslum: úr íslensku gabbró, hrauni og tré, marmara eða leir. Diskurinn er framleiddur á Íslandi og í Evrópu. Stefnir hentar bæði fyrir forrétti og eftirrétti heima við og er einnig einstaklega skemmtileg nýjung fyrir veitingahús, kaffihús eða hótel. Hönnun bybibi miðar að því auka virðingu okkar fyrir bæði mat og umhverfi. Með Stefni leggur hún áherslu á að við leyfum okkur að njóta þess að næra okkur og tengjast öðrum í gegnum mat með því að bera hann fram á nýjan og skemmtilegan hátt.
Hönnunarmars í Epal hefst með opnunarpartý þann 11.mars.
Vertu velkomin/n.