Á HönnunarMars í Epal sýndi Guðný Hafsteinsdóttir línuna Baugar.
„Handgerðir hlutir segja sögu sína í hljóði og tjá vinnuna sem er að baki hlutarins. Baugar er í senn skúlptúr, lágmynd á vegg og kertastjaki. Verkið samanstendur af þremur misstórum hringjum sem unnir eru úr svörtum leir og vikri sem gefa því hrátt yfirbragð og hraunáferð. Hringirnir eru með innfelda rauf og er því hægt að raða kertum í þá eins hverjum þykir fara best.”
Guðný Hafsteinsdóttir er keramiker og hönnuður. Hún er fædd í Vestmannaeyjum og ólst upp í návígi við hafið, höfnina, björgin og dýralífið sem einkennir eyjarnar og má glöggt nema áhrif þaðan í verkum hennar. Guðný nam við Myndlista-og handíðaskóla Íslands og var auk þess við nám í Finnlandi, Danmörku og í Ungverjalandi. Hún er félagi í Leirlistarfélagi Íslands og sat í stjórn Hönnunarmiðstöðvar frá 2011-2015 fyrir hönd félagsins. Hún hefur haldið einkasýningar, tekið þátt í fjölda samsýninga og hlotið viðurkenningar fyrir verk sín. Guðný hefur tekið þátt í rekstri nokkurra gallería og hefur rekið eigið verkstæði frá 1995.