Epal tekur þátt í HönnunarMars ellefta árið í röð með vandaðri sýningu á íslenskri hönnun.
Að þessu sinni er athyglinni beint að fjölbreyttum hóp íslenskra hönnuða sem hafa náð góðum árangri á sínu sviði bæði hérlendis og erlendis, enda hefur verslunin haft það að leiðarljósi frá stofnun að auka skilning og virðingu fyrir hönnun á Íslandi.
Sýningin í Epal opnar miðvikudaginn 27. mars kl. 17:00 – 19:00.
Nemendur á þriðja ári í fatahönnun verða með spennandi sýningu og gjörning hér á opnun HönnunarMars sem kallast „Íklædd arkitektúr“ og er undir stjórn Katrínar Káradóttur og Dainius Bendikas. Verkin eru unnin upp úr efnum af gömlum lager Epal frá textílframleiðandanum Kvadrat, sem eru á mörkum arkitektúrs og fatahönnunar.
Innsetningin Íklædd arkitektúr er samstarfsverkefni 3. árs nema í fatahönnun og 1. árs nema á alþjóðlegri samtímadansbraut.
Í verkefninu Íklædd arkitektúr var lögð áhersla á að dýpka skilning og þekkingu fatahönnunarnema á faginu. Innblásturs var leitað frá hinu virta fyrirtæki Kvadrat sem framleiðir fyrst og fremst textíl til innanhúsnotkunar. Unnið var í samstarfi við Epal og gaf fyrirtækið nemendum 100 m af efnum af eldri lager gardínuefna danska textílframleiðandans sem þekktur er um allan heim fyrir framúrskarandi hönnun og gæði í framleiðslu.
Fatahönnunarnemar kynntu afrakstur námskeiðsins fyrir dansnemum, sýndu hönnunarverk og gáfu þeim innsýn inn í rannsóknarvinnu sína. Dansnemarnir unnu svo nokkra ördansa út frá þremur verkum, með tilliti til forms, efnis og hreyfieiginleika hvers þeirra.
Afrakstur verkefnisins verður sýndur í heild sinni á opnun sýningar Epal á HönnunarMars.
Nemendur í fatahönnun: Sigmundur Páll Freysteinsson, Kristín Áskelsdóttir, Steinunn Stefánsdóttir,Ingerð Tórmóðsdóttir Jönsson, Julie Mölgard Jensen, Sigríður Ágústa Finnbogadóttir, Þ. Sunneva Elfarsdóttir
Nemendur í samtímadansi undir leiðsögn Ásgeirs Helga Magnússonar: Bjartey Elín Hauksdóttir, Mathilde Mensink, Mira Jochimsen.