ÍSLENSK HÖNNUN: 70%

Vöruhönnuðurinn Anna Þórunn Hauksdóttir hannaði borðin 70% og kynnti þau fyrr á árinu á Hönnunarmars í Epal. Borðin vöktu mikla athygli og hafa margir beðið með eftirvæntingu eftir að þau kæmu í sölu. Anna Þórunn sótti innblástur sinn í gamla súkkulaðiverksmiðju eins og hún lýsir sjálf:

“Minningin um gömlu súkkulaðiverksmiðjuna í miðbænum er mér oft hugleikin og þeir dagar þegar anganinn frá framleiðslunni lagði yfir bæinn svo að maður gat allt að því bragðað á dísætu loftinu. Súkkulaðiplatan er bæði fallegt og virðulegt form sem höfðar til bragðlaukanna en ekki síður til fegurðarskyns okkar.”


Borðin eru úr gegnheilli eik.

Nýlega var einnig umfjöllun um 70% borðin í hönnunartímaritinu Milk Decoration í septembermánuði.

 

Falleg íslensk hönnun eftir Önnu Þórunni sem fæst núna í Epal.