Jólaandinn mun svífa yfir í desember
og fáum við til okkar fjóra hönnuði og stílista sem munu dekka jólaborð í hverri viku fram að jólum í Epal Skeifunni. Halla Bára Gestsdóttir dekkaði upp glæsilegt jólaborðið í Epal. Halla Bára er með meistaragráðu í innanhússhönnun frá Domus Academy í Mílanó á Ítalíu. Hún vinnur sem innanhússhönnuður og ráðgjafi að ýmsum verkefnum jafnframt því að ritstýra Home and Delicious vefsíðunni. Halla Bára hefur haldið vinsæl námskeið um innanhússhönnun sem við mælum með að áhugafólk um hönnun og heimili kynni sér nánar.
Að hverju er gott að huga þegar dekkað er upp hátíðarborð? Ákveða hvaða stemmningu maður sækist eftir og vinna út frá henni. Hversu formlegt eða óformlegt viltu hafa yfirbragðið? Um það snýst málið.
Hvaða hlutir eru á borðinu? Þar sem ég hef almennt mjög blandaðan stíl og fell fyrir fallegu og áhugaverðu dóti héðan og þaðan sem og ýmsum stílbrigðum, þá sótti ég í ýmislegt ólíkt dót í Epal til að setja á borðið. Ég valdi dökkbláa Teema diska frá Iittala, sem ég er alltaf mjög hrifin af. Blanda svörtu, einföldu og grófu með í minni diskum og skálum en það finnst mér heillandi sem og ganga við allt. Ég sótti í nýja eldhúsdótið frá Hay, sem mér finnst mjög skemmtilegt, en þar kemur inn ákveðin hversdagsleg klassík og fagurfræði sem hentar mér. Á móti þessum hlutum þykir mér spennandi að sækja í meiri fágun og blanda henni með því sem er grófara.
Hvaða hlut værir þú helst til í að eiga af hátíðarborðinu? Í raun alla þessa hluti því að mínu mati eru þeir allir sérlega fallegir. Ég setti mér fyrir löngu síðan það markmið að standa fyrir þann stíl sem ég hef, vinna með og velja eingöngu það sem ég get ánægð sett fram í mínu nafni, og finnst fallegt, heillandi og áhugavert.
Finnst þér best að vinna eftir vissu þema þegar þú skreytir? Ég er svo svakalega concept-miðuð að ég vil alltaf vinna að sterkri hugmynd áður en ég framkvæmi, sama hversu lítið eða stórt verkefnið er. Í þessu tilfelli; að leggja á hátíðarborð, þá er það engin undantekning. Ég sæki í stemmningu og vinn með hana, eins og ég nefndi.
Hvernig er stíllinn á borðinu? Stíllinn er líklega frekar hversdagslegur sem hentar mér vel! Ég fékk það mikla hrós um daginn að hafa hversdagslegan stíl og afslappaðan, sem ég er svo ánægð með, og finnst lýsa því vel hvaða yfirbragð heillar mig. Þetta borð er sett fram í þeim anda. Heima hjá okkur fjölskyldunni er sjaldan lagt mjög formlega á borð þótt um glæsilegan mat sé að ræða. Við köllum frekar eftir stemmningunni og setjum á borðið ekki svo ólíkt þessu sem ég var að gera. Stöflum dóti upp, náum ólíkum hæðum á borðið, etjum saman ólíkum hlutum, gömlum og nýjum, notum kerti, gjarnan blóm og greinar. Þá finnst mér líka gaman að elda mat og bera mat á borð sem er eldaður í fallegum pottum, pönnum og fötum og fer beint á borðið. Það er eitthvað svo matarlegt og heillandi við það.