Ólöf Jakobína Ernudóttir dekkaði upp jólaborðið í Epal vikuna 10. – 17. desember. Ólöf lærði innanhússarkitektúr á Ítalíu og hefur unnið við margvísleg verkefni í hönnunarbransanum. Árið 2011 stofnaði hún ásamt Guðbjörgu Káradóttur hönnunartvíeykið Postulínu en þær hanna og framleiða muni úr postulíni. Ólöf vinnur einnig í dag sem stílisti hjá tímaritinu Gestgjafanum og er því nokkuð æfð í að leggja á borð.
HVERNIG ER STÍLLINN Á BORÐINU? Hér eru hvít jól og öllu er tjaldað til. Mig langaði að færa inn á borð það fannfergi sem við höfum nú um land allt og um leið skapa rólega stemningu í miðri búðinni þar sem venjulega úir og grúir af allskonar fíneríi. Ég valdi hvíta hluti og hýasintur en þær eru í miklu uppáhaldi hjá mér á þessum árstíma.
AÐ HVERJU ER GOTT AÐ HUGA ÞEGAR DEKKAÐ ER UPP HÁTÍÐARBORÐ? Hátíðarborðið er skreytt með öllu því fínasta sem til er á heimilinu. Sparistellið skal dregið fram og hnífapörin pússuð. Kerti og lifandi blóm finnast mér ómissandi og því meira því betra. Nýpressaður dúkur er ákaflega sparilegur en einnig má leyfa borðinu að njóta sín. Skreytið borðið með öllu ykkar uppáhalds dóti því jólin koma bara einu sinni á ári.
HVAÐAN ERU HLUTIRNIR?
Diskar: Ovale frá Alessi, hönnun Bouroullec-bræðranna (ég elska allt sem þeir gera)
Hnífapör: Georg Jensen hönnun Arne Jacobsen
Glös: Menu, hönnuð af Norm-arkitektum
Kertastjakar: Muuto, Ferm-living, Menu, By Lassen
Blómavasar: Lyngbyvasen, Muuto,
Skálar: Skagerak
Kaffikanna: Stelton
Bollar/glös: Design Letters
Jólatré og kertavasar: Postulína (þið finnið þær á Facebook)