Að þessu sinni er það myndlistamaðurinn Sigurður Árni Sigurðsson sem hannar kærleikskúluna en hún hefur fengið nafnið Sýn. Jólaóróinn, sem í ár er sveinninn Pottaskefill, er svo túlkaður af Signýju Kolbeinsdóttur, vöruhönnuði og einum eigenda Tulipop og Snæbirni Ragnarssyni, í Skálmöld. Signý hannar óróann og Snæbjörn yrkir kvæði um sveininn.
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hefur staðið að útgáfu Kærleikskúlunnar frá árinu 2003 og eru kúlurnar því orðnar þrettán talsins. Frá upphafi hafa kúlurnar fengið frábærar viðtökur landsmanna enda um að ræða einstakt safn listaverka eftir marga þekktustu listamenn okkar Íslendinga. Listamenn Kærleikskúlunnar hafa allir gefið vinnu sína og þannig stutt dyggilega við starf í þágu fatlaðra barna og ungmenna.
TILGANGUR
Tilgangurinn með sölu Kærleikskúlunnar er að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna, með því að efla starfsemi Reykjadals. Gera þannig fleirum mögulegt að njóta þar ævintýra tilverunnar í hópi með jafnöldrum – eignast vini og dýrmætar minningar.
Ár hvert fær Kærleikskúlan nýtt útlit – og er verkið í höndum fremstu listamanna þjóðarinnar. Í grunninn er Kærleikskúlan tær eins og kærleikurinn – með borða í rauðum lit, lit jólanna og kærleikans. Kærleikskúlan er blásin og eru því engar tvær kúlur nákvæmlega eins, en allar fallegar hver á sinn hátt. Kærleikskúlan kemur í kassa og fylgir henni bæklingur. Litir bæklinsins eru svartur og silfraður. Svartur táknar árstímann og silfraður birtuna sem er svo lýsandi fyrir boðskap jólanna.
Verð Kærleikskúlunnar er kr. 4.900,- og Pottaskefils kr. 3.500,-. Allur ágóði rennur til starfs í þágu fatlaðra barna og ungmenna og leggja verslanirnar málefninu því mikilvægt lið.