KÆRLEIKSKÚLAN 2012

LOKKANDI eftir Hrafnhildi Arnardóttur er Kærleikskúla ársins 2012. Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hóf útgáfu Kærleikskúlunnar árið 2003 og eru kúlurnar því orðnar tíu talsins. Úr er orðið einstakt safn listaverka eftir marga af okkar þekktustu listamönnum. Nafn kúlunnar er táknrænt en markmið með sölu hennar er að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna. Allur ágóðinn rennur til starfsemi Reykjadals, sumar- og helgardvalar Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra í Mosfellsdal.

 

LOKKANDI

Lokkandi er rómantískur óður til líkama og sálar,

minnisvarði minninga.

Innan um skilningarvitin laumast allt og dvelur inni í flóknu landslagi holds og hugar

einsog ilmurinn úr eldhúsinu.

Hárflækjan, ímyndað landslag tilfinninga og taugaboða

sem lokka okkur inn í króka og kima hugans,

er samofin öllu – einstök og endalaus.

Hrafnhildur Arnardóttir.