Lakrids by Johan Bülow er líklega einn besti lakkrís sem hægt er að finna og er hann aðeins seldur í vel völdum verslunum þar sem gæði og hönnun haldast í hendur.
Helgina 11., 12. og 13. mars verður sannkölluð lakkrís veisla haldin á Kolabrautinni í samstarfi við Lakrids by Johan Bülow. Matreiðslumeistarar Kolabrautarinnar hafa sett saman matseðil með 4 réttum sem innihalda hinar ýmsu útfærslur á lakkrís frá heimsþekkta „gourmet“ fyrirtækinu Lakrids.
Þetta er viðburður sem enginn sannur lakkrísunnandi má láta framhjá sér fara.
Við hittum Georg Arnar Halldórsson matreiðslumeistara á Kolabrautinni í létt spjall:
Núna er þetta í annað sinn sem þið haldið lakkrís veislu í samstarfi við Lakrids by Johan Bülow, síðast árið 2013, hvernig voru viðtökurnar þá? Viðtökurnar voru mjög góðar. Margir eiga líklega erfitt með að ímynda sér heilan matseðil af lakkrís, en þú munt alls ekki fá nóg af lakkrís eftir þennan dinner.
Verða einhverjar áherslubreytingar í ár? Síðast var matseðillinn frekar lágstemmdur, það verður svipað fyrirbrigði í ár en mögulega aðeins meiri kraftur í lakkrísnum. Hugmyndirnar varðandi matseðilinn eru einnig meira útpældar í ár og meiri hugsun varðandi heildina.
Er það mikil áskorun að vinna með lakkrísvörur fyrir þig sem kokk? Já ekki spurning, en það er gaman að fá smá áskorun og prófa eitthvað nýtt.
Þetta er áskorun því það passar ekki hvaða matur sem er með lakkrís og lakkrísinn getur auðveldlega stolið öllu bragðinu. Lakkrísinn þarf að vera aðeins undir ratsjánni en að bragðið komi þó alltaf í gegn.
Þú vilt að þetta sé uppbygging, það byrjar varlega en þegar nálgast að endarlokum verður meiri kraftur. Dálítið eins og sinfónía, það þarf að horfa á þetta sem heildarupplifun.
Margir tengja lakkrís meira við sætt nammi, en á matseðlinum er að finna t.d. lakkrísgljáða andabringu. Virkar lakkrís almennt vel í matseld?
Já, hann gerir það, þetta er svo breið lína af vörum frá Lakrids. Vörurnar eru bæði skemmtilegar og góðar og auðvelt að vinna með þær. Sýrópin henta t.d. alveg í báðar áttir og er til sem sætt og salt en það er ekki of sætt. Því er t.d. penslað beint á öndina og síðan bara kryddað til.
Það er auðvelt að tengja þetta við önnur lakkrískrydd eins og t.d. Anís eða fennel fræ, sem er gott með rauðkáli og bleikju.
Hver er þinn uppáhalds réttur sem í boði er í lakkrís veislunni sem þú gætir borðað aftur og aftur?
Það er sennilega hvítkálið, hugmyndin kemur útfrá rauðkáli og anís sem er vel þekkt, en við skiptum því út fyrir grillað hvítkál, borið fram með bagnecaudasósu og steiktu lakkrískrydduðu rúgbrauði.
Er þessi viðburður eitthvað sem enginn lakkrísunnandi má láta framhjá sér fara? Ekki spurning, þetta er athyglisvert fyrir alla til að prófa, -nema þér þykir lakkrís vera vondur þá myndi ég ekki koma.
Ertu búinn að undirbúa matseðilinn lengi? Ég er búinn að hugsa um þetta í nokkra mánuði og prófa nokkra rétti. Hugmyndirnar voru til staðar og gengu svosem allar upp, maturinn verður alltaf ljúffengur með lakkrísvörunum en það er aðalatriðið að fínpússa hugmyndirnar og finna rétt magn af lakkrís.
Er ekkert stress að eiga von á sjálfum Johan Bülow í Lakkrís veisluna? Nei, ég held hann verði mjög ánægður!
– Ekki missa af þessari ljúffengu lakkrís veislu dagana 11., 12. og 13. mars. Borðapantanir eru í síma 519-9700.
Myndirnar hér að neðan eru teknar í lakkrísveislunni árið 2013.