SAMSPIL – SIGURJÓN ÓLAFSSON & FINN JUHL
Hugarflug milli höggmyndar og hönnunar í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar á Laugarnesi.
Sunnudaginn 5. júlí klukkan 15:00 ætlar Æsa Sigurjónsdóttir, listfræðingur, að leiða gesti um sýninguna SAMSPIL – SIGURJÓN ÓLAFSSON & FINN JUHL. Ásamt Birgittu Spur er Æsa sýningarstjóri og hefur hún rannsakað áður ókönnuð tengsl milli þessara tveggja listamanna og ritað mjög áhugaverða grein í sýningarskrá.
Danski arkitektinn Finn Juhl (1912-1989) er einn þekktasti innanhúsarkitekt og húsgagnahönnuður 20. aldar. Höfðingjastóllinn, Pelikan stóllinn, og sófinn Poeten njóta enn og aftur alþjóðlegrar hylli.
Færri vita að Finn Juhl og Sigurjón Ólafsson (1908-1982) myndhöggvari áttu farsælt samstarf í Kaupmannahöfn. Árin 1939, 1940 og 1941 valdi Finn Juhl skúlptúra eftir Sigurjón Ólafsson til að setja hjá húsgögnum sínum á sýningum Snedkerlaugets í Kaupmannahöfn, og önnur verk keypti hann til að hafa á heimili sínu og teiknistofu.
Finn Juhl og Sigurjón Ólafsson áttu margt sameiginlegt. Báðir heilluðust af nýsköpun með form og efni og fóru ótroðnar slóðir í tilraunum sínum sem tengdust dönskum framúrstefnuhópum. Þeir unnu saman að sýningunni 13 Kunstnere i Telt (1941), en sú sýning braut blað í danskri listasögu. Einnig fengust báðir snemma við mikilvæg verkefni, sem tengdust byggingalist; þannig vann Finn Juhl á teiknistofu Vilhelms Lauritzen við hönnun á nýbýggingu danska ríkisútvarpsins (1937-46) og árið 1937 hlaut Sigurjón fyrstu verðlaun í samkeppni um Hús barnanna í Tivoli garðinum ásamt arkitektinum Flemming Teisen og málarinn Egon Mathiesen.
Finn Juhl teiknaði nokkur einbýlishús, fyrst og fremst eigið hús við Kratvænget í Charlottenlund (1941-1942), með eigin innréttingum, húsgögnum og danskri nútímalist, sem nú er safn og alþjóðleg fyrirmynd módern hönnunar. Árið 1940 teiknaði Juhl íbúðarhús fyrir Sigurjón og þáverandi konu hans, myndhöggvarann Tove Ólafsson (1909-1992). Húsið var aldrei byggt, en teikningin, sem hefur varðveist, gefur góða mynd af því hvernig Juhl hugsaði tengsl listsköpunar og byggingarlistar.
Ljósmyndari: Spessi
Á sýningunni SAMSPIL – SIGURJON ÓLAFSSON & FINN JUHL, Hugarflug milli höggmyndar og hönnunar, í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar, má sjá húsgögn Juhls ásamt verkum eftir Sigurjón Ólafsson, m.a. þeim sem Juhl valdi fyrir heimili sitt og teiknistofu í Kaupmannahöfn.