Hönnunarmars 2020 // Gömul klassísk sem rís upp

Epal tekur þátt í HönnunarMars tólfta árið í röð með vandaðri sýningu á íslenskri hönnun. Stóll Helga Hallgrímssonar sem endurgerður er af Finn Juhl verður sýndur í Epal á Hönnunarmars.

Helgi Hallgrímsson var einn virtasti húsgagnaarkitekt tuttugustu aldar. Á Hönnunarmars 2020 frumsýnir Epal endurgerð á íslenskum stól eftir Helga Hallgrímsson, sem smíðaður er af hinu virta, danska húsgagnafyrirtæki House of Finn Juhl.

Árið 1960 sýndi Helgi Hallgrímsson þennan forláta armstól og fótskemil á sýningu Félags húsgagna- og innanhúsarkitekta og nú 60 árum síðar hefur House of Finn Juhl hafið framleiðslu á stólnum.

Einstök íslensk hönnun í númeruðum eintökum. 

 

GÖMUL KLASSÍSK RÍS UPP

 

Helgi Hallgrímsson er ekki nafn sem allir þekkja. Kannski var það hógværðin í þessum lágstemmda manni sem gerði það að verkum að nafn hans hefur ekki skinið jafn hátt og starfsbræðra hans og kollega. Það er alla vega ljóst að það er ekki skorti á hæfileikum eða gjörvuleika um að kenna.

 

Nú hefur hið virta húsgagnafyrirtæki Finn Juhl, sem sérhæfir sig í vandaðri smíði á danskri hönnun, ákveðið í samstarfi við Epal að endurgera stól og skemil sem Helgi hannaði fyrir sýningu Félags húsgagna- og innanhúsarkitekta árið 1960 og verður stóllinn „endur-frumsýndur“ á Hönnunarmars.

-En hver var Helgi?

„Pabbi var alltaf svo hógvær og talaði ekki mikið um sín störf. Ég áttaði mig ekki almennilega á hversu vel þekktur og virtur hann væri af kollegum sínum fyrr en að honum látnum,“ segir Rut Helgadóttir, dóttir Helga, sem rifjar upp að hans sé til að mynda getið í ítalskri hönnunarbók um sögu evrópskrar hönnunar á tuttugustu öld.

 

„Hann fæddist á Patreksfirði árið 1911 en fór 16 ára til náms í húsgagnasmíði Iðnskólann í Reykjavík. Eftir að hafa klárað sveinsstykkið sigldi hann út með Dronning Alexandria og hóf nám við Listiðnaðarskólann í Kaupmannahöfn. Hann lauk þar prófi sem húsgagnaarkitekt árið 1938 en var jafnframt um tíma við nám í Þýskalandi. Í Danmörku var hann í góðum félagsskap, en meðal vina hans og kunningja voru Hans Wenger og Børge Mogensen sem eru með þekktustu hönnuðum heims í dag og áttu þátt í að móta danska hönnun. Þetta voru góðir vinir sem héldu sambandi og ég á til að mynda fallegt bréf frá Börje þar sem hann þakkar gjafirnar til ungs sonar síns,“ segir Rut og bendir á að Helgi hafi þannig verið beintengdur inn í hina miklu upprisu danskrar hönnunar um miðbik síðustu aldar sem flestir þekkja.

 

Rut lýsir föður sínum sem einstökum séntílmanni og miklum heimsmanni, sem er svolítið sérstakt fyrir mann sem er alinn upp í barnmergð á Patreksfirði og það af fátæku fólki. Það sama hefði mátt segja um móður hennar, Svövu Vigfúsdóttur, en þau voru bæði afar smekklegt fólk með auga fyrir hönnun. Helgi og Svava áttu tvö börn, Rut og Hallgrím. „Pabbi las mikið og var hæglátur en gat þó verið hrókur alls fagnaðar. Hann var mjög skarpur og með góðan húmor en tranaði sér ekki fram. Hann var ástríðufullur baráttumaður á sinn hæga hátt, en gat líka verið svolítið stífur ef hann vissi að hann hefði rétt fyrir sér.“

 

Helgi starfaði alla tíð sem húsgagna- og innanhússarkitekt, en samhliða því miðlaði hann þekkingunni áfram og kenndi teikningu og stílfræði við Iðnskólann í Reykjavík frá 1940-1985, þar af yfirkennari í 16 ár. „Hann hvatti þar marga efnilega arkitekta til að fara út í frekari nám. Hann skrifaði einnig mikið og hélt erindi víða, honum var í mun að koma húsgagnahönnun og arkitektúr á stall. Hann var mjög virkur í félagsmálum, starfaði engi með Oddfellowreglunni í Reykjavík og Iðnaðarmannafélaginu í Reykjavík auk þess að vera einn af stofnendum Félags húsgagnaarkitekta, síðar Félags húsgagna- og innanhússarkitekta, og var heiðursfélagi þar. Hann var virtur fagmaður af sínum félögum.“

Hönnun Helga
„Pabbi tók að sér mörg áhugaverð og skemmtileg verkefni sem vöktu athygli, hann innréttaði til að mynda innréttingar og húsgögn fyrir Landsbankann, Hæstarétt og Forsetaembættið. Hann tók þátt í ýmsum samsýningum ásamt Sveini Kjarval og öðrum hönnuðum sem blómstruðu á þessum sama tíma. Hann hafði næma tilfinningu fyrir hlutföllum og að sitja rétt, svo stólarnir voru þægilegir“

Rut segir heimili fjölskyldunnar að Sigtúni 37 hafa verið glæsilegt og einstaklega vel hannað en faðir hennar sá um allar innréttingarnar. Hann hafi þá gjarnan hugað að snjöllum lausnum til að auðvelda húsmóðurinni verkin. „Allt var svo fallegt og vel gert. Hann var mjög uppfinningasamur og var mikið í mun að leysa mál fyrir húsmæður. Í eldhúsinu voru skáparnir til að mynda með rimlarúllum, svo þú værir ekki að reka höfuðið í skápahurðirnar þegar þær opnast, það var straubretti sem datt út úr skáp og Electrolux hrærivélin var í sérhönnuðum skáp, föst á bretti.“

 

 

DANSKIR MEISTARAR ENDURGERA STÓL HELGA

 

Árið 1960 sýndi Helgi Hallgrímsson forláta armstól og fótskemil á sýningu Félags húsgagna- og innanhúsarkitekta. „Faðir minn, Garðar Gíslason, var þá ungur maður í Menntaskólanum í Reykjavík.  Mætti hann á sýninguna og rak strax augun í stólinn góða.  Þar sem hann hafði ekki getu til að kaupa stólinn var það honum til happs að móðir hans, sem var með í för, ákvað að kaupa stólinn og gefa honum og hefur stóllinn verið í stöðugri notkun í 60 ár,“ segir Kristján Garðarsson, arkitekt, sonur Garðars, og hýsir nú gripinn.

 

„Með þessum kaupum hvarf stóllinn sýn flestra, og lenti þannig má segja í glatkistunni, alla vega gagnvart umheiminum.  Þó er líklegt að til sé annað eintak, klætt ullaráklæði, en ekki er vitað hvort svo sé og þá hvar hann er niðurkominn – en hann kemur kannski í ljós núna þegar stóllinn hefur verið endurgerður!“

Hluti af dönsku bylgjunni

Helgi var hluti af þeim straumum og stefnum sem voru í skandinavískri hönnun um miðja öldina, enda menntaður í Danmörku. „Það má til að mynda sjá talsverð líkindi með stólnum hans Helga og The France Chair sem Finn Juhl teiknaði fyrir danska húsgagnaframleiðandann France & Son. Mætast í stólunum tveim næm tilfinning fyrir rými og hvernig húsgagn tekur sér stöðu sem skúlptúr – á sama tíma og þessi fljótandi form eru vandlega mótuð til að styðja við líkamann,“ segir Kristján og fullyrðir að Helgi eigi mikið inni sem hönnuður.

„Í spjalli við Eyjólf Pálsson fyrir nokkrum árum nefndi ég að það væri gaman að gera nokkur eintök af stólnum: Bæði þætti mér ábyrgðarhlutur að hugsanlega væri einungis til eitt eintak og hyggilegt væri að gera alla vega varaeintak – og svo ekki síður að mér þætti við hæfi að varpa á ný ljósi á Helga sem hönnuð. Eyjólfur ræddi þetta við Kjartan son sinn, framkvæmdastjóra Epal, og tóku þeir vel í þessa hugmynd þó fjárhagsleg áhætta lægi öll þeirra megin. Eyjólfur stakk upp á vinum sínum hjá House of Finn Juhl, þeim Ivan Hansen og og Henrik Sorensen – fáum væri betur treystandi til að endurgera stólinn á sem vandaðastan hátt,“ útskýrir Kristján og segir að Ivan og Eyjólfur hafi komið nokkrum sinnum og skoðað stólinn hjá sér, prófað og velt fyrir sér. „Fór loks svo að stóllinn var sendur utan og mældur allur upp.  Eina sem ég óskaði í þeim efnum var að hann yrði ekki losaður upp á neinn hátt og héldi alveg upprunalegri samsetningu. Nú er hann kominn aftur heim í stofu – og að auki 25 tölusett eintök sem þeir feðgar í Epal hafa hjá sér.  Það verður gaman að fylgjast með viðbrögðum við stólnum, ég tel alla vega að Helgi Hallgrímsson eigi mikið inni sem hönnuður.“

 

Vandaður gripur

Armstóllinn og fótskemillinn sem Helgi Hallgrímsson teiknaði voru smíðaðir af Friðriki Þorsteinssyni og bólstraðir af Ásgrími P. Lúðvíkssyni.  „Það má segja að þar hafi verið valinn maður í hverju rúmi;  geysifalleg teikning sem hlýtur að hafa verið flókið að koma í þrívítt form, klappað í palisander harðvið og ekki síður vandasamt að bólstra.  Ásgrímur náði t.d. að bólstra bakið þannig að hann saumaði leðrið aftan á laust bakstykkið, þá var bakið fest á grindina og svo saumaði hann framhlutann.  Þannig sjást engar festingar og er nánast ógjörningur að hugsa sér að framleiða stól svona í dag.  Enda er þetta módelstykki,“ segir Kristján Garðarsson, arkitekt.

 

Hönnunarmars 2020 // FORMER

Epal tekur þátt í HönnunarMars tólfta árið í röð með vandaðri sýningu á íslenskri hönnun. Former er á meðal sýnenda í Epal á HönnunarMars. 

Arkitektarnir Ellert Hreinsson og Rebekka Pétursdóttir standa á bakvið FORMER. Á Hönnunarmars kynna þau sínar fyrstu vörur undir vörulínunni VERA, þar sem markmiðið er að bjóða upp á vörur þar sem fjölbreytt notagildi, einfaldleiki og gæði fara saman.

VERA bekkur –  Fjölnota bekkur með blaðagrind sem kemur í grunninn í tveimur útfærslum, með eða án hliðarborðs úr náttúrusteini (Granít). Einnig er hægt að skipta út prófíl/um í blaðagrind fyrir háan prófíl, býður það á breytt notkunargildi, sem fatahengi sem dæmi

VERA hilla – Stílhrein lausn á nútímaheimilið, nýtist vel í að brjóta upp opin rými til að fá meiri nánd.  Hillan er hugsuð með það að leiðarljósi að notandinn geri hana að sinni, að persónuleiki notandans sé í fyrsta sæti (primary) en hillan í öðru (secondary).

Hillan skiptist í tvennt, hilla með báruðu gleri og opnir endar sem nýtast til að geyma glös, bolla eða búsáhöld svo dæmi séu tekin.

Verið velkomin á Hönnunarmars í Epal Skeifunni. 

Hönnunarmars 2020 // Hið íslenska tvíd

Epal tekur þátt í HönnunarMars tólfta árið í röð með vandaðri sýningu á íslenskri hönnun. Kormákur og Skjöldur eru á meðal sýnenda í Epal á HönnunarMars með sýninguna Hið íslenska tvíd“.

Kormákur og Skjöldur tilkynna með ánægju að í fyrsta skipti í tæp 50 ár er hafin framleiðsla á íslensku „tvídi“. Á HönnunarMars þá kynnum við efnið og sýnum jakka, vesti, buxur og höfuðföt úr efninu. Epal sýnir einnig klassísk húsgögn bólstuð með íslensku tvídi.

Okkur hjá Kormáki og Skildi og Epal er sönn ánægja að tilkynna að í fyrsta skipti í tæp 50 ár þá er hafin framleiðsla á íslensku “ Tweedi “

Á hönnunarmars þá erum að að fagna verkefni sem Kormákur og Skjöldur hafa verið að undirbúa í nokkur ár sem er framleiðsla á íslensku “ Tweedi “ eða vaðmáli úr íslenskri ull. Vara sem ekki hefur verið framleitt hérlendis síðan á sjöunda áratug síðustu aldar. Sú var tíðin að íslenskt Tweed efni var framleitt hérlendis. Öll stig framleiðslunnar voru unnin hér. Allt frá því að bóndinn afhenti hráa ullina, ullin var hreinsuð og þvegin, kembd og spunnið úr henni ullarband. Bandið var svo ofið í Tweed efni sem var notað í fatnað, teppi, áklæði og margskonar aðra hluti. Gamla Álafoss úlpan er gott dæmi um fatnað sem nýtti íslenskt tweed.

Sumar aðferðir við vinnslu textílefna hafa þó viðhaldist betur hér á landi en aðrar. Prjón og hekl eru aðal vinnsluaðferðir okkar. Vefnaðurinn er talinn gera textílefnið sterkara en við erum ekki að framleiða ofin textílefni lengur og hefur vefnaður úr íslensku ullinni horfið að mestu leyti. Sá tækjakostur og þekking sem var til hérlendis er því miður horfin og því enginn iðnaðarvefnaður til staðar lengur. Textílframleiðslan á ullinni er því frekar einhæf hér á landi.

Hjá Kormáki og Skildi höfum við haft það markmið að snúa þróuninni við þegar kemur að vefnaði úr íslenskri ull. Okkar sýn er að iðnaðarvefnaður úr íslenskri ull komist aftur á laggirnar hér á landi. Því höfum við hafið framleiðslu á íslensku “ Tweed “ bæði fyrir innlendan markað og erlendan.

Ullin í “ Tweedinu “ er í grunnlitunum fjórum þ.e. mórauður, hvítur, grár og svartur. Úr þessum fjórum litum hönnum við úrval mynstra og blöndum samana litunum sem saman mynda heildstæða línu. Ullin kemur frá öllum landshornum Íslands, ullarbandið er spunnið af Ístex í Mosfellsbæ og er svo er “ Tweedið “ ofið í einni bestu millum í Evrópu, Seidra í Austurríki. Draumurinn er að geta gert allt ferlið eingöngu hérlendis en til þess vantar enn tæki og þekkingu sem hefur með tímanum tapast að hluta.

Frá árinu 2010 hafa Kormákur & Skjöldur verið að hanna sínar eigin fatalínur sem hafa með árunum stækkað og dafnað. Þar sem viðtökur hafa verið frábærar teljum við að nú sé tímabært að fara skrefi lengra og hanna fatalínu úr íslenskri ull, íslensku Tweed-i. Við viljum að fatalínan okkar verði ekki bara íslensk hönnun heldur einnig úr íslenskum efnivið. Það var upphafið að þessari vöruþróun okkar.

Íslanska ,,Tweedið“ hefur einnig vakið athygli eiganda húsgagnaverslunarinnar Epal, sem frábær kostur sem áklæði fyrir innlenda sem og erlenda húsgagnaframleiðendur. Efnið hefur staðist allar gæðaprófanir og er leitast við að varan sé í senn nátturuvæn og með sömu gæði og samkeppnisaðilar erlendis bjóða upp á.  Markmið Epal er að kynna húsgögn sem bólstruð eru með íslensku „Tweedi“ sem valkost í húsgagnaframleiðslu á Hönnunarmars.
Í verslun Kormáks og Skjaldar verður kynnt fyrsta framleiðslan okkar úr “ Tweedin “ Þar má finna Jakka, Buxur, Vesti og höfuðföt.

Í verslun Epal má finna hinn klassíska EJ 270-3 sófa frá Erik Jörgensen sem fyrirtækið hefur notað hið íslenska “ Tweed “ í framleiðsluna og svo tvær útgáfur af hinum klassisk Kjarvalsstólum endurgerðir með “ Tweedinu “.

 

Verið velkomin á Hönnunarmars í Epal Skeifunni.

Íslensk hönnun í sinni litríkustu mynd // Hönnunarmars 2020 í Epal

Íslensk hönnun í sinni litríkustu mynd

Með þátttöku Epal í tólfta sinn á HönnunarMars verður sýnd áhugaverð hönnun eftir fjölbreyttan hóp hönnuða. Epal hefur haft að leiðarljósi frá stofnun árið 1975 að auka skilning og virðingu fyrir hönnun á Íslandi með því að velja hönnun og gæðavörur sem skara fram úr. Epal hefur alla tíð stutt íslenska hönnuði og lagt sig fram um að hjálpa þeim við að koma verkum sínum á framfæri og í framleiðslu og hluti af því er þátttaka í Hönnunarmars.

Staðsetning: Epal Skeifan 6, 108 Reykjavík.

Hönnunarmars í Epal stendur yfir dagana 24. – 27. júní 2020.

Opnunartími :

FIMT : 10-18

FÖST : 10-18

LAU : 11-16

HönnunarMars : Hring eftir hring

Epal tekur þátt í HönnunarMars ellefta árið í röð með vandaðri sýningu á íslenskri hönnun. Að þessu sinni er athyglinni beint að fjölbreyttum hóp íslenskra hönnuða sem hafa náð góðum árangri á sínu sviði bæði hérlendis og erlendis.

Hring eftir hring er á meðal sýnenda í Epal á HönnunarMars. 

” Nafnið Hring eftir hring nær einstaklega vel utanum skartgripina sem við frumsýnum nú á Hönnunarmarsi en þeir eru allir gerðir úr endurnýttu hráefni. Slípaðir náttúrusteinar, kuðungar og skeljar, sjávarperlur, plastkúlur, hraunmolar, málmar, kókos, bein og bambus… Efniviður sem eitt sinn var hluti af hálsfesti eða armbandi ánægðs eiganda en endaði ofan í skúffu eða hjá endurvinnslustöð.

Hráefnið sem við nýtum kemur víða frá, spannar kannski heiminn allan, en á það sameiginlegt að hafa “glatað” fegurð sinni og notagildi, í huga eigandans í það minnst. Okkur langar að reyna að nýta hráefnið aftur, gefa þeim annað líf og lofa því að fara hring eftir hring.

Í versluninni Epal, Skeifunni 6, munum við frumsýna eyrnalokka og hálsfestar sem eru viðbót og framhald við GUÐRÚNAR skartgripalínu okkar, en sú lína er uppsköpuð og framleidd á náttúruvænan máta úr endurnýttu hráefni að öllu leiti, að frátöldum silkiþræðinum og gullhúðuðu eyrnalokkafestingunum.”

Verið velkomin á Hönnunarmars í Epal.

HönnunarMars : Guðmundur Lúðvík

Epal tekur þátt í HönnunarMars ellefta árið í röð með vandaðri sýningu á íslenskri hönnun. Að þessu sinni er athyglinni beint að fjölbreyttum hóp íslenskra hönnuða sem hafa náð góðum árangri á sínu sviði bæði hérlendis og erlendis.

Guðmundur Lúðvík er á meðal sýnenda í Epal á HönnunarMars. 

Guðmundur Lúðvík hannaði húsgagnalínuna Close sem er sería af margnota borðstofu, skrifborðs og hægindarstólum sem framleiddir eru af hollenska húsgagnaframleiðandanum Arco. Close stóllinn er eins þægilegur og hann lítur út fyrir að vera og kemur í mörgum ólíkum tegundum og litum, bólstraður með textíl eða leðri og er því hægt að sérsníða samsetningu stólsins að þörfum hvers og eins.

Verið velkomin á HönnunarMars í Epal.

 

HönnunarMars : Dögg Guðmundsdóttir

Epal tekur þátt í HönnunarMars ellefta árið í röð með vandaðri sýningu á íslenskri hönnun. Að þessu sinni er athyglinni beint að fjölbreyttum hóp íslenskra hönnuða sem hafa náð góðum árangri á sínu sviði bæði hérlendis og erlendis.

Dögg Guðmundsdóttir er á meðal sýnenda í Epal á HönnunarMars. 

Hiti er sería af glæsilegum borð og gólflampa ásamt hangandi ljósum sem innblásin eru af klassískri danskri hönnun en undir nokkrum erlendum áhrifum. Hiti lamparnir eru hannaðir af Philip Bro og Dögg Guðmundsdóttur 2018 og eru fyrstu lamparnir sem danski húsgagnaframleiðandinn FDB Møbler kynnir. Lamparnir eru með sporöskjulaga kúlulaga gleri og fætur eru úr hnotu.

HönnunarMars : Heiðdís Halla

Epal tekur þátt í HönnunarMars ellefta árið í röð með vandaðri sýningu á íslenskri hönnun. Að þessu sinni er athyglinni beint að fjölbreyttum hóp íslenskra hönnuða sem hafa náð góðum árangri á sínu sviði bæði hérlendis og erlendis, enda hefur verslunin haft það að leiðarljósi frá stofnun að auka skilning og virðingu fyrir hönnun á Íslandi.

Heiðdís Halla er á meðal sýnenda í Epal á HönnunarMars. 

Grafíski hönnuðurinn Heiðdís Halla Bjarnadóttir sýnir hluta verka sinna af sýningunni FORM sem frumsýnd var í Listaskálanum að Brúnum í Eyjafirði í desember 2018.

Verkin voru upphaflega tvívíð tölvugrafíkverk hugsuð sem plaggöt sem síðan þróuðust yfir í handunnin þrívíð veggverk úr tré og textíl. Verkin eiga það sameiginlegt að ganga út á samspil fyrirfram ákveðinna forma og lita og bera engar vísanir, merkingu eða skilaboð. Þrívíðu verkin spretta af sama grunni og þau tvívíðu en uppfylltu löngun starfandi grafísks hönnuðar til að færa sig frá tölvunni og vinna líka með efnið í höndunum. Verkin tvinna á þann hátt saman hönnun, list og handverk og sér Heiðdís mikla möguleika í að þróa þrívíðu verkin áfram í efnisvali, stærð og sem nytjahluti.

Heiðdís Halla er fædd árið 1981 og uppalin á Egillstöðum. Hún hefur numið og starfað í París, Kaupmannahöfn og Reykjavík en er nú búsett á Akureyri þar sem hún á og rekur grafísku hönnunarstofuna DUO. Textíll hefur alltaf vakið áhuga Heiðdísar og nær oft að teygja sig inní hennar verk á einn eða annan hátt. Í hennar eigin verkum hefur hún þróað mjög persónulegan stíl þar sem tvívíddin í grafíkinni er færð yfir í dýpt textílsins.

Sýningin Íslensk hönnun í sinni litríkustu mynd stendur yfir alla helgina í Epal Skeifunni.

HönnunarMars : Hlynur Atla

Epal tekur þátt í HönnunarMars ellefta árið í röð með vandaðri sýningu á íslenskri hönnun. Að þessu sinni er athyglinni beint að fjölbreyttum hóp íslenskra hönnuða sem hafa náð góðum árangri á sínu sviði bæði hérlendis og erlendis, enda hefur verslunin haft það að leiðarljósi frá stofnun að auka skilning og virðingu fyrir hönnun á Íslandi.

Hlynur Atlason er á meðal sýnenda í Epal á HönnunarMars en hann rekur hönnunarstofuna ATLASON í SoHo hverfi New York borgar þar sem hann hefur verið búsettur í tæpa tvo áratugi. Nýjasta hönnun hans er húsgagnalínan Von sem hönnuð var fyrir breska húsgagna framleiðandann Ercol.

Von vörulínan samanstendur af mismunandi einingum af sætum og borðum sem hægt er að raða saman til að útbúa sérhannaða samsetningu sem sniðin er að þörfum heimils eða almenningsrýmis og þjónar jafnt hlutverki til slökunar eða samveru. Von húsgagnalínan hefur hlýlegt yfirbragð og er framleidd úr gegnheilum aski eða hnotu og fæst í hinum mismunandi áklæðum og litum.

Von hægindarstóllinn prýðir forsíðu nýjasta Elle Decoration.

HönnunarMars : Sigga Heimis

Epal tekur þátt í HönnunarMars ellefta árið í röð með vandaðri sýningu á íslenskri hönnun. Að þessu sinni er athyglinni beint að fjölbreyttum hóp íslenskra hönnuða sem hafa náð góðum árangri á sínu sviði bæði hérlendis og erlendis, enda hefur verslunin haft það að leiðarljósi frá stofnun að auka skilning og virðingu fyrir hönnun á Íslandi.

Sigga Heimis er á meðal sýnenda í Epal á HönnunarMars og sýnir HLYJU sem eru fallegir hjartalagaðir speglar og mun allur ágóði af sölunni renna til Sjónarhóls, – ráðgjafastöð fyrir foreldra með langveik og/eða fötluð börn. 

 

“Ég hef ákveðið að sýna verkefni sem stendur hjarta mínu bókstaflega nær á Hönnunarmars í ár. Ýmislegt kemur þar til:

Ástríða mín fyrir gleri minnkar ekki með árunum, þvert á móti eykst hann því meira sem ég vinn með þetta magnaða efni. Gler er bæði umhverfisvænt og þolið og svo er grunnefni þess kísill sem við eigum nóg af. Tækifæri til að vinna með gler á Íslandi eru takmörkuð en þó einhver. Áhugi minn var vakin að vinna mögulega hluti hérlendis eftir að hafa í áraraðir unnið með erlendum glerblásurum og fyrirtækjum.

Samfélagsleg ábyrgð er mér ofarlega í huga í minni vinnu sem hönnuður og hönnunarstjórnandi. Umhverfisvitund og næmni henni tengdri er einnig grunnur hvers hönnuðar. Öllum ber skylda að tengja framtíðarvörur við þau málefni sem brenna á okkur sem samfélag enda ábyrgðin okkar að skila frá okkur betri heimi en þann sem við komum inn í.

HLYJA er einfalt geómetrískt form sem notandinn getur leikið sér með. Hægt er að raða nokkrum saman og á mismunandi vegu eftir því hvað hver vill og hentar. Ein eining virkar líka ágætlega þar sem það passar. Hægt er að snúa einingunni á mismunandi vegu í 45 gráðu horn og 90. HLYJA er gerð úr reyklituðum/skyggðum spegli kemur í 3 litum; grábleikur, dimmbláum og grágylltum. HLYJA kemur í 3 stærðum.

HLYJA verður kynnt á Hönnunarmars og mun allur ágóði af sölunni renna til Sjónarhóls (http://www.sjonarholl.net) sem er ráðgjafastöð fyrir foreldra með langveik og/eða fötluð börn. Þar er fólk sem styður við og hjálpar foreldrum sem þurfa að rata í gegnum opinbera kerfið þegar áföll dynja á.

Epal (https://www.epal.is) , Íspan (https://www.ispan.is) og undirrituð tókum höndum saman og vildum með þessum viðburði vekja athygli á mikilvægu málefni og íslenskri hönnun og framleiðslu.

HönnunarMars stendur yfir alla helgina í Epal Skeifunni.