HÖNNUNARMARS Í EPAL: ÍSLENSK SAMTÍMAHÖNNUN VIII – Textílhönnun

HönnunarMars í Epal stendur yfir dagana 23. – 26. mars.

Við sýnum í ár áhugaverða hönnun eftir fjölbreyttan hóp hönnuða sem eiga það sameiginlegt að hafa skarað fram úr á Íslandi og erlendis. Epal hefur haft að leiðarljósi frá stofnun árið 1975, að auka skilning og virðingu fyrir hönnun á Íslandi og hluti af því er þátttaka í HönnunarMars.

Meðal þess sem er til sýnis er áttunda sería frímerkjanna “íslensk samtímahönnun” eftir Örn Smára sem fjallar í ár um íslenska textílhönnun. Frímerkin sýna hönnun eftir þær Anítu Hirlekar, Bryndísi Bolladóttur, Rögnu Fróða og Vík Prjónsdóttur. Höfundar textílsins hafa hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningur fyrir hönnun sína í gegnum tíðina.

BRYNDÍS BOLLADÓTTIR

Auga/Kúla – Hljóðlausn

Bryndís útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands 1999 og hefur sérhæft sig frá árinu 2009 í að byggja upp skúlptúrform sem jafnframt hafa notagildi og hefur í þeim tilgangi fengið alþjóðlegar vottanir fyrir hljóðdempandi virkni verka sinna. Bryndís hefur sýnt og selt verk sín til allra Norðurlandanna sem og fjölmargra Evrópulanda.

RAGNA FRÓÐA

Fjallgarður – Heimilistextíll

Ragna lærði fata- og textílhönnun í París og á Íslandi og hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar og styrki fyrir hönnun sína. Undanfarin ár vann Ragna í New York hjá einu þekktasta tískuspádómsfyrirtæki heims. Ragna býr núna á Íslandi og vinnur að eigin hönnun, auk þess sem hún er deildarstjóri Textíldeildar Myndlistarskólans í Reykjavík.

VÍK PRJÓNSDÓTTIR

Verndarhönd – Trefill

Vík Prjónsdóttir er samstarfsverkefni hönnuða en markmið þess er að efla vöruþróun á sviði ullar- og prjónaiðnar. Hönnuðirnir heillast af sagnahefð og hegðun náttúrunnar.
Þeir eru Brynhildur Pálsdóttir, Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir og Þuríður Rós Sigurþórsdóttir. Fyrirtækið hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar og vörurnar verið sýndar á sýningum erlendis.

ANÍTA HIRLEKAR

Vor/Sumar 2016 – Tískulína

Anita útskrifaðist með MA-gráðu í fatahönnun 2014 frá Central Saint Martins listaháskólanum í London. Hugmyndafræði Anítu snýst um að sameina handverk og tískuvitund með einkennandi hætti. Hún var valin sem ein af fjórum mest framúrskarandi alþjóðlegum hönnuðum árið 2015 í Bretlandi. Aníta hefur unnið til fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir hönnun sína.