Við megum til með að deila áfram þessari frábæru grein um PH ljósið sem birtist á vefmiðlinum Kjarnanum þann 3.júlí 2016. Greinin er skrifuð af Borgþóri Arngrímssyni.
Sjá grein á Kjarnanum, hér
–
Í nýlegri danskri könnun þar sem landsmenn voru beðnir að nefna tíu þjóðargersemar kenndi ýmissa grasa. Meðal gersemanna var PH ljósið svonefnda. PH er eiginlega samnefni yfir fleiri en eitt ljós sem byggjast öll á sömu hugmyndinni. Níutíu ár eru síðan arkitektinn og hugmyndasmiðurinn Poul Henningsen, PH, fékk hugmyndina og smíðaði sitt fyrsta ljós, en þessi hönnun hefur staðið af sér allar tískubylgjur og ljósin seljast enn eins og heitar lummur, kannski jafnvel hraðar!
Poul Henningsen var fæddur 1894 í Ordrup norðan við Kaupmannahöfn. Hann var í opinberum skjölum skráður sonur rithöfundarins Agnesar og skólastjórans Mads Henningsen. Faðirinn var hins vegar rithöfundurinn Carl Edwald, sem móðir Pouls átti í ástarsambandi við. Að loknu barnaskólanámi hóf hann nám í múrverki en 1911 – 1917 stundaði hann nám við Det tekniske Selskabs Skole og jafnframt um tveggja ára skeið í Polyteknisk Læreanstalt, Tækniskólanum. PH hafði mikinn áhuga fyrir málaralist og stundaði um skeið nám hjá listmálaranum Johannes Larsen. PH stundaði ekki, frekar en margir þekktir danskir hönnuðir og arkitektar, ekki nám við Arkitektadeild Listaháskólans, Kunstakademiet. Bakgrunnurinn var iðn- og tækninám.
Snemma áberandi í menningarlífinu
PH hafði snemma mörg járn í eldinum. Hann setti á fót teiknistofu í eigin nafni árið 1919, sem hann starfrækti árum saman. Vann meðal annars mikið fyrir skemmtigarðinn Tívolí, var einskonar hirðarkitekt þar eins og hann orðaði það einhvern tíma. Hann hafði alla tíð mikinn áhuga fyrir þjóðfélagsmálum, skrifaði árum saman fyrir dagblaðið Politiken og síðar Information. Hann samdi jafnframt fjölmargar revíur og á árunum 1926 – 1928 gaf hann út tímaritið Kritisk Revy, þar var fjallað á gagnrýninn hátt um þjóðfélagsmál. 1935 fékk utanríkisráðuneytið hann til að gera kvikmynd um daglegt líf í Danmörku, myndin var hugsuð sem kynning á landi og þjóð. Myndin fékk misjafna dóma og var síðar stytt og er nú til í tveimur útgáfum. PH var frá upphafi mjög gagnrýninn á nasismann og eftir að Þjóðverjar hernámu Danmörku 1943 voru öll skrif hans ritskoðuð.
Flýði til Svíþjóðar undan nasistum
30. september 1943 flýði PH ásamt eiginkonunni Inger á árabát yfir Eyrarsund til Svíþjóðar. Um borð í árabátnum var líka arkitektinn Arne Jacobsen ásamt unnustu sinni og ungum verkfræðingi, Herbert Marcus, sem lagði stund á kappróðra. Þeir Arne Jacobsen og Herbert Marcus voru gyðingar og óttuðust um líf sitt. Það gerði PH líka og eftir að stríðinu lauk komst upp að danskir nasistar ætluðu sér að drepa PH og fjölskyldu hans með því að kveikja í raðhúsi fjölskyldunnar í Ordrup. Eftir að stríðinu lauk flutti PH með fjölskyldu sinni til baka til Danmerkur og það gerðu líka Arne Jacobsen og Herbert Marcus. Eftir heimkomuna hélt PH áfram að skrifa, ásamt vinnunni á arkitektastofunni. Arkitekta- og ritstörfin verða ekki frekar rakin hér en listinn er langur: einbýlishús, fjölmargar og ólíkar opinberar byggingar, Tívolí (sem áður var getið) söngvar, skrif í dagblöð og tímarit. Ennfremur skrifaði hann nokkrar bækur og var áberandi persóna í dönsku þjóðlífi.
En það er þó fyrst og fremst eitt sem heldur nafni hans á lofti.
PH ljósin
Strax á námsárunum fékk PH mikinn áhuga fyrir ljósum og lýsingu. Ljósaperurnar voru að hans mati ljótar, og birtan frá þeim annaðhvort allt of skær eða dauf. Hann einsetti sér að útbúa ljós, eða skerm eins og hann kallaði það, sem kastaði birtunni frá sér án þess að peran sjálf væri sýnileg. Hann gerði ótal tilraunir heima í raðhúsinu í Ordrup og á teiknistofunni. Árið 1924 hófst samvinna PH við fyrirtækið Louis Poulsen. Það fyrirtæki var stofnað 1874 í kringum innflutning á víni, sá rekstur gekk ekki vel en 1891 hóf fyrirtækið rekstur rafmagnsverkstæðis og opnaði jafnframt verslun með verkfæri og járnvörur af ýmsu tagi ásamt litlu járnsmíðaverkstæði. Þegar PH leitaði eftir samvinnu við Louis Poulsen 1924 var ætlun hans að taka þátt í alþjóðlegri sýningu í París árið 1925 og sýna þar nýju uppfinninguna, þriggja skerma ljósið. Skemmst er frá því að segja að ljósið, sem var loftljós úr málmi, vakti mikla athygli og hlaut fyrstu verðlaun sýningarinnar. Ári síðar, 1926, vann PH í samvinnu við Louis Poulsen samkeppni um lýsingu í nýja sýningarhöll, Forum, á Friðriksbergi við Kaupmannahöfn. Í dagblaði frá þessum tíma segir að ljósin, skermarnir úr opal gleri, hafi verið eins og hvítir fuglar í sýningarsalnum.
Einstök hönnun
Bæði PH og forsvarsmönnum Louis Poulsen var ljóst að uppfinning PH, þriggja skerma ljósið, var einstök og Louis Poulsen náði brátt samningum við umboðsmenn í mörgum löndum og lét úbúa kynningarefni. Nýjar útfærslur af þriggja skerma ljósinu komu á markaðinn, loftljós, borðlampar, og salan jókst stöðugt. Í blaðaviðtali frá þessum tíma sagðist forstjóri Louis Poulsen handviss um að PH ljósin ættu eftir að verða vinsæl og eftirsótt í framtíðinni og þriggja skerma hönnunin myndi standast tímans tönn. Hann reynist sannspár.
Margt í gangi hjá PH
Þótt ljósin seldust vel og möguleikarnir á útfærslum hugmyndar PH væru langt frá því að vera tæmdir hafði hönnuðurinn fleiri járn í eldinum. Tekjurnar af ljósasölunni gerðu honum kleift að sinna öðrum áhugamálum, þar voru ritstörfin fyrirferðarmest. Svo var það arkitektastofan, þar var nóg að gera. Louis Poulsen þrýsti mjög á PH að koma með fleiri ljós og nýjar útfærslur. Árin liðu, PH var orðinn moldríkur (eins og hann orðaði það sjálfur) en hann hélt þó alltaf áfram að sinna öllum sínum fjölmörgu áhugamálum. Skyndilega var komið árið 1958.
PH 5
Mörg af ljósum PH bera ekki sérstök heiti. Þau hafa einfaldlega tölustaf fyrir aftan stafina PH, til aðgreiningar hvert frá öðru. Þótt til séu nokkur hundruð mismunandi ljós og útfærslur af ljósum Poul Henningsen er ljósið sem fékk nafnið PH 5 lang þekktast og hefur orðið eins konar samnefnari fyrir verk hans. PH 5 kom á markaðinn 1958 og talan 5 merkir að stærsti skermurinn er 50 sentimetrar í þvermál. Þetta ljós, PH 5, féll strax í kramið hjá almenningi og hefur selst í milljónatali. Í verksmiðju Louis Poulsen í Vejen á Jótlandi eru 130 starfsmenn og þar eru árlega framleidd að minnsta kosti 230 þúsund ljós en nákvæm tala fæst ekki gefin upp. Lang stærsti hluti framleiðslunnar er PH ljós og lampar, þar vegur hlutur PH 5 þyngst. Efnið í PH 5 er mattlakkað ál, aðalliturinn í upphafi hvítur en einnig blár litur og rauður til að skapa jafnvægi í dreifingu birtunnar. Síðar hafa komið fleiri litir og sífellt bætist við úrvalið. Sérstök útgáfa, kölluð PH 50 kom á markaðinn 2008, í tilefni þess að þá var hálf öld síðan PH 5 var fyrst framleitt. Poul Henningsen hefur líklega ekki órað fyrir vinsældum áratuga vinsældum ljóssins en hann lést 1967.
Hver er ástæða þess að þetta ljós sem hefur verið á markaðnum í tæpa sex áratugi er svo vinsælt? Margir vildu geta svarað þessari spurningu en enginn veit svarið. Ljósið er fyrir löngu orðið sígilt og hefur staðið af sér alla tískustrauma. Salan helst stöðug milli ára, eykst þó heldur. Án þess að tölulegar staðreyndir liggi fyrir verður að telja líklegt að hlutfallslega séu PH 5 ljósin algengust í Danmörku en þau hafa í gegnum árin selst vel í nágrannalöndunum og hafa lengi verið vinsæl á Íslandi. Japanir eru líka hrifnir af ljósunum. Sú saga er sögð af Japana sem kom til Danmerkur uppúr 1960 að hann hafi keypt PH 5 ljós og haft með sér heim. Hann hafi svo sagt frá því þegar heim kom að sér hefði verið sagt að danska ríkið gæfi öllum brúðhjónum í Danmörku svona ljós. Þetta ku hafa þótt tíðindi þar eystra. Takmörkuð tungumálakunnátta veldur iðulega misskilningi.