Úrauppboð J.S.watch til styrktar KRAFTI

 

Íslenski úraframleiðandinn J.S. Watch, og tveir af fremstu listamönnum þjóðarinnar Erró og Eggert Pétursson ætla að styrkja Kraft, stuðningsfélag ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandenda þeirra, með sérstöku uppboði.

Það var árið 2010 sem hugmyndin kviknaði hjá eigendum og framleiðendum JS Watch co. Reykjavik úranna að fá til liðs við sig fremstu listamenn þjóðarinnar til að skapa eitthvað alveg sérstakt og leggja það fram sem stuðning við Kraft, stuðningsfélagi ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandenda þeirra.

 

 

Hugmyndin sem lögð var fyrir listamennina var að fá þá til að skreyta skífur tveggja glæsilegra Islandus úra frá JS Watch co. Reykjavik ásamt öskjunni utan um úrin og skapa þannig glæsileg listaverk sem ekki eiga sér hliðstæðu hér á landi. Því næst að halda uppboð á úrunum með það fyrir augum að safna peningum til styrktar Krafti þar sem allur ágóði af uppboðinu rennur óskertur til Krafts.

Nú rúmu ári síðar er afrakstur þessa samstarfs tilbúinn, tvö glæsileg úr og öskjur sem skarta listaverkum Erró og Eggerts Péturssonar og er því um afar sérstaka skartgripi að ræða sem munu án efa vekja eftirtekt og aðdáun um ókomna tíð.

Hér er um einstakt tækifæri fyrir safnara og áhugamenn að eignast afar sérstaka safngripi og það er óvíst að tækifæri til þess að eignast svona verk gefist aftur.

Uppboðið hófst þann 8. desember og lýkur þann 20. janúar kl 10.

Hægt er að fylgjast með uppboðinu á heimasíðu J.S. Watch á www.jswatch.com