Vaðfugl til styrktar Vildarbörnum 

Vaðfugl til styrktar Vildarbörnum

Icelandair, Epal og hönnuðurinn Sigurjón Pálsson hafa tekið höndum saman og framleitt sérstaka útgáfu af hinum vinsæla Vaðfugli Sigurjóns. Hin nýja útgáfa er í litum Icelandair og er framleidd í takmörkuðu upplagi. Allur ágóði af seldum fuglum rennur til styrktar Vildarbörnum Icelandair.

Sigurjón Pálsson er íslenskur hönnuður og rithöfundur sem hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir hönnun og skrif. Vaðfuglarnir, sem eru hans hönnun, hafa notið mikilla vinsælda og verið seldir víða um heim. Fyrirmyndirnar sækir hann í hina ástsælu íslensku vaðfugla; spóa, stelk og sendling.

Vaðfugl Icelandair er fáanlegur í verslunum Epal og á epal.is.

 

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:

„Við erum mjög stolt af samstarfinu við Epal og Sigurjón Pálsson og gætum ekki verið ánægðari með útkomuna. Kjarnastefna okkar snýst um að færa anda Íslands út í heim og því fannst okkur mjög spennandi að kynna viðskiptavinum okkar þessa útgáfu af Vaðfuglinum. Við erum sannfærð um að viðskiptavinir okkar og Epal munu taka þessu verkefni vel enda er þetta frábært tækifæri til að prýða heimilið litagleði og láta um leið gott af sér leiða og styðja við mikilvægt starf Vildarbarna Icelandair.“

Um Vildarbörn Icelandair: 

Í um 21 ár hefur Icelandair hjálpað langveikum börnum og þeim sem búa við sérstakar aðstæður að láta ferðadrauminn rætast í gegnum ferðasjóð Vildarbarna. Sjóðurinn er fjármagnaður með framlögum farþega Icelandair með kortagreiðslu eða afgangsmynt, með framlögum félaga í Saga Club í formi Vildarpunkta og stofnframlagi Icelandair með rausnarlegum stuðningi Sigurðar og Peggy Helgasonar.

Frekari upplýsingar um Vildarbörn er að finna á vildarborn.is